mars 2017

Forseti Golfsambands Íslands, Haukur Birgisson verður næsti gestur okkar.

Í tilefni þess að stutt er í það að golfvertíðin hefjist og auk þess að margir golfarar eru í gestahópnum á „Lambalærinu“ þótti okkur tilhlíðandi að fá forseta Golfsambandsins í heimsókn til að segja okkur hvað er á döfinni hjá sambandinu
og lauma nokkrum góðum sögum með.
Vegna þess að komið er fram í páskamánuðinn og fermingar á döfinni er erfitt að fá inni í félagsheimilinu á föstudögum. Höfum við því ákveðið að vera með „Lambalærið“
miðvikudaginn 5.apríl kl.12.00 og þurfa menn því að bregðast fljótt við og skrá sig fyrir hádegi mánudaginn 3.apríl.
Þeir Sigurður Kr. Sveinbjörnsson í sigurdurks@simnet.is og Helgi Þorvaldsson í síma 821-2610 munu skrá menn að venju. Allir eru velkomnir eins og alltaf og
engin nauðsyn að vera Þróttari.

Júlíus færist nær titlinum í hraðskákinni.

Júlíus steig stórt skref í áttina að titlinum „Stigameistari Þróttar
2017“ á þriðjudag
þegar hann sigraði með fullu húsi stiga eftir að hafa unnið sex af sjö skákum en næstu
fimm menn urðu jafnir í 2.- 5.sæti með fjóra vinninga og 3,5 stig í sarpinn. Þegar tvær umferðir eru eftir og mest hægt að ná í 14 stig er Júlíus með 54,5 stig en næsti maður,
Óli Viðar er með 44,5 stig og þriðji er Kjartan með 35,5 stig. Næst verður teflt ‪11.apríl‬.

Sóley María og Stefanía í sigurliði Íslands

Íslenska U17 ára landslið stúlkna lék í dag gegn Svíum í milliriðli Evrópumótsins í knattspyrnu en leikurinn lauk með sigri Íslands, 1-0 og það var einmitt Þróttarinn Stefanía Ragnarsdóttir sem skoraði eina mark leiksins á 8.mínútu. Báðir þeir leikmenn Þróttar sem valdir voru í U17 ára landsliði voru í byrjunarliði Íslands en þetta var fyrsti leikur liðsins á mótinu. Íslenska liðið leikur auk Svíþjóðar í riðli með Portúgal og Spáni og fer sigurliðið í riðlinum í úrslitakeppni Evrópumótsins í sumar. Við óskum stelpunum til hamingju með sigurinn og óskum þeim alls hins besta í leikjunum sem framundan eru. Lifi Þróttur!

Þrír knattspyrnuþjálfarar Þróttar í heimsókn hjá Köge

Í samkomulagi er gert var á síðasta ári um samstarf á milli Þróttar og HB Köge í Danmörku er gert ráð að þjálfurum félaganna gefist kostur á að heimsækja samstarfsfélagið, taki þátt í æfingum hjá þeim og kynnist þeirri starfsemi sem þar fer fram. Þrír þjálfarar á vegum Þróttar heimsóttu HB Köge nú í vikunni sem leið, Sigurgeir Sveinn, Haraldur Hróðmarsson og Ingvi Sveinsson en þeir dvöldu frá félaginu í 5 daga í góðu yfirlæti en Per Rud skipulagði heimsókn þeirra með fjölbreyttri dagskrá æfinga og fundahalda með þjálfurum danska félagsins.
Fleiri þjálfarar frá Þrótti munu heimsækja HB Köge á næstunni en reiknað er með að farið verði í tvær slíkar ferðir til viðbótar á árinu og það verði því um 10 þjálfarar á vegum félagsins sem fari í slíka ferð á þessu ári. Þjálfurunum er svo skylt að skila inn skýrslu frá heimsókninni og kynna fyrir öðrum þjálfurum félagsins.

© Copyright 2016 Knattspyrnufélagið Þróttur

Knúið af Everything WordPress sniðmátinu