FRÉTTIR


 • Stúkan við Eimskipsvöllinn endurbyggð

  Borgarráð Reykjavík samþykkti í gær að bjóða út framkvæmdir við miklar endurbætur á stúkunni við gervigrasið og áætlað er að framkvæmdum ljúki á þessu ári.  Í framkvæmdum felast m.a. endurbætur á burðarvirki og klæðningu stúkunnar auk þess sem komið verður fyrir fjölmiðlaaðstöðu, sætum fjölgað ásamt fleiru. Kostnaður er áætlaður um 100 milljónir króna.  Það er ljóst að ásýnd svæðisins okkar og Eimskipsvallarins mun gjörbreytast við þessar endurbær og er það mikið gleðiefni fyrir okkur Þróttara .

  Meðfylgjandi eru teikningar af mannvirkinu sem sýna hvernig útlitið getur orðið eftir endurbætur.

  Daði Bergsson snýr aftur heim: „Hérna er hjartað í Reykjavík!“

  Daði Bergsson hefur undirritað tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Knattspyrnufélagið Þrótt. Þessi 21. árs leikmaður á að baki 61 leik í meistaraflokki þar sem hann hefur spilað frá sextán ára aldri. Fyrstu tvö tímabilin voru hjá Þrótti, en síðan hleypti hann heimdraganum og samdi við NEC í Hollandi og var þar í tvö ár. Að þeim tíma loknum fór hann til Vals og var þar í tvö ár, þar af hálft ár á lánssamningi við Leikni Reykjavík. Daði á að baki 29 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

  GREGG: HUNGRUÐ HÖRKUVIÐBÓT
  „Daði er leikmaður sem hefur þrátt fyrir ungan aldur lengi verið meðal þeirra efnilegustu í landinu. Hann snýr nú aftur í Þrótt og mun fá tækifæri til að upplifa þá tilfinningu að vera frá upphafi álitinn lykilmaður í sterkum hópi. Daða hungrar í velgengni, bæði persónulega en þó ekki síður fyrir félagið. Ég er þess fullviss að hann mun leggja sig 120% fram til að standa undir væntingum og ég veit að stuðningsmenn félagsins verða hæstánægðir. Það er ótrúlega uppörvandi að fá svona fljótan, flinkan og firnasterkan vængmann til liðs við okkur,“ segir Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar.

  ÓTTHAR: HERDEILD HEIMARÆKTAÐRA
  „Daði er öskufljótur og ógnandi. Hann hefur alla burði til að verða hörkuviðbót í hópinn, bætir nýrri vídd í spilamennskuna og á eftir að verða andstæðingum okkar skeinuhættur. Fyrir félagið er auðvitað einstaklega ánægjulegt að fá uppalinn leikmann aftur í dalinn. Það er alla vega ansi langt síðan annarri eins herdeild af heimaræktuðum hetjum var teflt fram hérna hjá Þrótti. Við horfum hugdjarfir á leiktíðina framundan og erum til alls líklegir. Það er bjart yfir Laugardalnum núna í svartasta skammdeginu,“ segir Ótthar Sólberg Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar.

  DAÐI: FRÁBÆRT SUMAR FRAMUNDAN
  „Það er hrikalega gaman að vera kominn aftur heim í Þrótt og ég hlakka til að taka slaginn með nýjum og gömlum félögum. Ég er spenntur fyrir umgjörðinni í Laugardal, líst vel á stefnu klúbbsins og er fullur eftirvæntingar að taka þátt í þessu verkefni. Leikmannahópurinn er traustur og virkilega skemmtilegt að sjá hversu margir uppaldir Þróttarar ætla að einhenda sér í Inkasso-ástríðuna næsta sumar. Það er ekkert leyndarmál að við stefnum beint aftur upp, enda með alvöru hóp, algjöran toppþjálfara og bakland sem er engu líkt. Það toppar enginn Köttara í ham — þetta verður frábært sumar. Hérna er hjartað í Reykjavík,“ segir Daði Bergsson.

  Úrslitin í 6.umferð í skákinni.

  Í lengri skákunum var tefld næst síðasta umferð og urðu úrslit sem hér segir:

  Júlíus vann Sölva, Óli Viðar vann Kjartan og Jón H. vann Braga. Í frestaðri skák úr 1.umferð hafði Kjartan betur gegn Helga. Fyrir síðustu umferðina er Óli Viðar efstur með 5 vinninga og Júlíus annar með 4 vinninga. Aðrir eiga ekki möguleika á sigri.

  Í hraðskákinni varð Júlíus efstur með 6 vinninga, annar Kjartan með 5,5 vinninga, þriðji Bragi með 5 vinninga, fjórði Helgi með 4,5 vinninga og í fimmta til sjötta sæti með 4 vinninga urðu þeir Davíð og Óli Viðar.

  Eftir 6 umferðir er Júlíus efstur með 36 stig, Óli Viðar annar með 23,5 stig og í þriðja til fjórða sæti með 15,5 stig eru þeir Helgi og Jón H.

  Næst verður teflt 31.janúar.


STYRKTARAÐILAR


 • coca-cola_european_partners-square
 • hummel-125x125
 • holdur-125x125
 • Þróttur-lyklar

 • netsofnun_trottur_1_125x125
 • 125-vismot
 • 125-reycup-siminn

© Copyright 2016 Knattspyrnufélagið Þróttur

Knúið af Everything WordPress sniðmátinu