2017

Áramótapistill Formanns Þróttar.

Kæru Þróttarar nær og fjær.

Árið 2017 var viðburðarríkt ár hjá okkur Þrótturum og skilaði félaginu góðu starfi og flottum árangri víða. Starfsfólk, iðkendur, stjórnarfólk og sjálfboðaliðar hafa allir staðið sig vel á árinu og sýnt að þeir hafa styrk og getu til að takast á við stór og smá verkefni og vinna úr þeim félaginu og sér sjálfum til sóma.

Framundan er áfram haldandi vinna við að bæta aðstöðumál félagsins og ber þar hæst barátta fyrir okkar eigin íþróttahúsi tengt félagshúsinu okkar. Fjölmörg skref í þá átt voru stigin á árinu, en vegna fjölmargra utanaðkomandi ótengdra mála m.a. fyrirhugaðra breytinga á Laugardalsvelli og vangaveltum um framtíðarskipulag Laugardalsins náðist ekki að koma málinu jafn langt á árinu og ég hefði kosið. Ég er samt bjartsýnn um að á upphafsmánuðum næsta árs munu næstu skref skýrast.

Á árinu var stúkan við aðalvöllinn endurbyggð og er hún nú mikil prýði hér við félagshúsið. Einnig er búið að fjárfesta í öflugu hljóðkerfi sem sett verður upp í stúkuna nú í vor.  Á árinu var sett upp nýtt myndavélakerfi í félagshúsið sem var orðið mjög brýnt.

Nú í janúar verður hafist handa vinna við að fjarlægja standana og gömlu stúkuna á Valbjarnarvelli. Við það stækkar æfingaraðstaðan þar til muna. Í framtíðinni er það okkar ósk að þar verði byggður nýr gervigrasvöllur auk fleiri æfingarvalla.

Félagsstarfið og gleðin eru lykillinn að okkar flotta og stækkandi félagi þar sem allir finna sér verkefni við hæfi, hvort sem það er við æfingar, í keppni eða öðrum störfum. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fyrir samstarfið á árinu og við hlökkum til að takast á við mörg og spennandi verkefni sem bíða okkar á árinu 2018.

Lifi Þróttir

Finnbogi Hilmarsson, formaður.

Íþróttamaður Þróttar 2017 er Eldey Hrafnsdóttir.

Knattspyrnufélagið Þróttur hefur valið Eldey Hrafnsdóttir sem íþrottamann Þróttar árið 2017. Eldey Hrafnsdóttir er fædd árið 2000 og er uppalin hjá félaginu. Eldey spilar þetta árið stöðu díó í meistaraflokki en hefur prófað hinar ýmsu stöður í gegnum tíðina, til að mynda spilar hún stöðu kants í 2. flokki sem hún æfir og keppir einnig með. Eldey var valin efnilegasti leikmaður Mizunodeildar kvenna síðasta tímabil og var tilnefnd sem besti díó deildarinna rnú á dögunum.

Eldey hefur bæði spilað með U17 og U19 á Nevza (norður evrópukeppni) og er í lokahóp fyrir næsta verkefni U19 sem eru undanriðlar Evrópukeppni sem fram fer í janúar. Eldey er stigahæst í liði meistaraflokks með 104 stig, það sem af er tímabili. Hún er metnaðarfull, jákvæð og góður liðsfélagi.

Innilegar hamingjuóskir Eldey,

Lifi Þróttur

Þróttari ársins 2017: HM Hópurinn.

Hingað til hefur verð valinn einstaklingur sem þótt hefur skara fram úr í sjálfboðaliðastarfi fyrir félagið. Í þetta sinn ákváðum við að fara aðeins aðra leið og velja hóp sem Þróttara ársins.

 

Hópurinn sem um ræðir átti sér í upphafi samastað í Sæviðarsundinu þegar nokkrir félagar tóku að hittast yfir súpu og brauði.  Hópurinn fluttist svo með félaginu í Laugardalinn og nýjir félagar bættust í hópinn með nýjum áherslum. Á haustmánuðum 2011 fannst mönnum svo tími til að hópurinn gerði auk þess eitthvað gagn og var stofnað sérstakt félag utan um félagsskapinn í desember 2011.  Markmiðið var að styrkja góð málefni innan Þróttar.

 

Hópurinn ákvað að bjóða upp á „Lambalæri að hætti mömmu“ einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina til efla félagsandann og halda auk þess í desember hvert ár jólahangikjötveislu.

Með „Lambalærinu“ var boðið upp á ræðumann sem gestir fengju síðan að spyrja spjörunum úr.  Þetta fyrirkomulag hefur vakið mikla lukku ekki aðeins meðal Þróttara heldur hafa gestir komið víða að.  Ræðumenn eru nú komnir á sjöunda tuginn og gestirnir skipta þúsundum.

Fyrstu stjórnarmenn í hópnum  voru Gunnar Baldursson sem hefur verið formaður hópsins frá byrjun, Brynjólfur Grétarsson, Helgi Þorvaldsson, Lára Dís Sigurðardóttir, Sigurður Hallvarðsson og Sigurður K. Sveinbjörnsson. Við fráfall Sigurðar Hallvarðssonar kom Auðunn Kjartansson inn í stjórnina.

Hópurinn hefur nú þegar útdeild fjölmörgum styrkjum og má þar nefna:  Fyrsti styrkurinn fór til okkar eina sanna Sigurðs heitins Hallvarðssonar. Hópurinn hefur m.a gefið félaginu dúka á borðin í veislusalinn, tölvu fyrir öryggiskerfið í félagsheimilinu, styrkt meistaraflokk kvenna í knattspyrnu, styrkt kaupin á stólum í veislusalinn í samvinnu við aðalstjórn, keypt borð í salinn í samvinnu við Skákklúbb og aðalstjórn félagsins, þá hefur hópurinn einnig styrkt kaupin á nýju hljóðkerfi í veislusalinn ásamt fleiru.

Hópurinn sem um ræðir er að sjálfsögðu HM hópurinn og er þeim þakkað frábært starf vinna fyrir félagið undanfarin ár.

Magnús Vignir Pétursson er 85 ára í dag, 31.desember.

Hann lék bæði handknattleik og knattspyrnu á fyrstu árum félagsins, var formaður Handknattleiksdeildar auk annarra stjórnarstarfa.
Einnig starfaði hann sem dómari í áratugi í báðum greinum og var milliríkjadómari um langt skeið einnig í báðum greinunum. Þá styrkti hann félagið með ráðum og dáð. Þróttarar senda honum árnaðaróskir á afmælisdaginn.