maí 2017

Stjórn Rey Cup býður í vöfflur og kaffi miðvikudaginn 7. júní kl. 20.

Á meðan þú gæðir þér á nýbökuðum vöfflum og kaffi langar okkur að segja þér frá Rey Cup 2017, fimmtán ára afmælismóti sem fer fram frá 26. til 30. júlí í sumar.

Nú þegar er mótið uppselt og hafa 10 erlend og um 80 íslensk lið tryggt sér þátttöku í mótinu.

Sem fyrr þurfum við aðstoð allra foreldra í Þrótti til að taka að sér margskonar störf sem til falla. En þú þarft samt ekki að vera foreldri barna í fótbolta hjá Þrótti til að hjálpa okkur, velvild til íþróttaiðkunar í Laugardalnum dugir alveg ein og sér. Frá þessu og miklu fleiru langar okkur að segja þér yfir vöfflunum.

Við hvetjum alla sem einn að taka tímann frá og koma við í Þróttaraheimilinu á næsta miðvikudag, fá sér vöfflu og fræðast um Rey Cup. Og í framhaldi leggja okkur lið í júlí, enda er Rey Cup stærsta einstaka fjáröflun Þróttar og gerir okkur kleift að halda úti því frábæra starfi sem börnin okkar njóta svo góðs af.

Sjáumst á miðvikudaginn kl. 20.

Finnbogi endurkjörinn formaður Þróttar.

Aðalfundur Þróttar fór fram í dag. Finnbogi Hilmarsson var endurkjörinn formaður, en hann var sjálfkjörinn eins og stjórnin öll. Aðrir í stjórn eru; Kristján Kristjánsson, Lilja Benónýsdóttir, Sigurður K. Sveinbjörnsson, Eik Gísladóttir, Hulda M. Pétursdóttir og Helgi Sævarsson.

Afkoma félagsins er jákvæð, en allar deildir og aðalstjórn voru rekin með hagnaði á síðasta ári. Fram kom á fundinum að helsta verkefni stjórnar á komandi ári sé áframhaldandi vinna í úrbótum á inniaðstöðu félagsins. Sú vinna er í góðum farvegi og verður kynnt betur þegar málin skýrast.

Á á síðasta starfsári voru þrír einstaklingar gerðir að heiðursfélögum í félaginu og á fundinum fékk Helgi Þorvaldsson afhentan heiðurskross félagsins sem fylgir tilnefningunni. Þeir Sölvi Óskarsson og Guðmundur Gaukur Vigfússon munu fá sína heiðurskrossa afhenta við fyrsta tækifæri.

Arnar Darri framlengir við Þrótt

Markvörðurinn Arnar Darri Pétursson kom til okkar Þróttara frá Stjörnunni fyrir keppnistímabilið í fyrra og var þá gerður samningur sem gilti út keppnistímabilið 2017 en samningurinn hefur nú verið framlengdur og gildir út keppnistímabilið 2019.  Þetta er gleðiefni fyrir Þróttara en Arnar Darri hefur verið fastamaður í liði meistaraflokks og hefur leikið alla leiki liðsins í deild og bikar á þessu keppnistímabili.  Arnar Darri á að baki 18 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og ljóst að hann mun gegna lykilhlutverki í liði okkar Þróttara á næstu árum.  Lifi Þróttur!!

Mynd: Fótbolti.net – Eyjólfur Garðarsson

Leikmenn mánaðarins

Í gær voru veitt verðlaun fyrir Leikmann mánaðarins í meistaraflokkum karla og kvenna. Þetta er skemmtileg nýbreytni sem er komin til að vera. Stuðningsmenn Þróttar, Köttararnir, sáu um að velja þann leikmann sem þótti standa upp úr annars jöfnum hópi í maí. Jón Ólafsson og Ásmundur Helgason veittu verðlaunin fyrir hönd Köttara en sigurlaunin eru gjafabréf á veitingastaðnum Messanum, einum af bestu veitingastöðum borgarinnar.

Í meistaraflokki karla varð fyrir valinu Hreinn Ingi Örnólfsson en hjá meistaraflokki kvenna varð það Sierra Marie Lelii.

Til hamingju Hreinn og Sierra,

Lifi Þróttur.