Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er fjórði formaður Þróttar, Garðar Óskar Pétursson.

Garðar Óskar Pétursson, 1906 – 1988 , varð fjórði formaður félagsins árið 1955 og gegndi því starfi í fimm ár en eftir það sat hann í aðalstjórn í önnur 15 ár, öll árin sem varaformaður og var ómetanlegur sem slíkur.  Upphafið að starfi Óskars, eins og hann var alltaf kallaður, var það að félagið vantaði mann í undirmótanefnd og tveir vinnufélagar hans í Vélsmiðjunni Héðni föluðust eftir að fá að nota nafn hans í þá nefnd sem starfaði ekki mjög mikið.  Óskar lét tilleiðast og eftir það varð ekki aftur snúið.

Óskar var á kafi í skátastarfi á þessum tíma og var í efstu röðum skáta á Íslandi.  Það var því nóg að gera á þeim bænum.  Árið 1954 varð hann fulltrúi félagsins í Knattspyrnuráði Reykjavíkur og sat þar í nokkur ár. 

Óskar fæddist á Ísafirði 2.desember 1906 og var því annar formaður Þróttar frá þeim bæ. Þegar félagið flutti af Grímsstaðaholtinu inn í Sæviðarsund, hverfið hans Óskars, en hann bjó á Langholtsveginum, varð hann nokkurs konar framkvæmdastjóri uppbyggingarinnar á svæðinu, án launa, og var hann þar öllum stundum. 

Óskar lést 8.nóvember á 83 aldursári og í minningargrein um hann sagði Tryggvi E. Geirsson þáverandi formaður: „Með árunum varð Óskar samnefnari allra Þróttara, dáður og virtur af öllum.  Það var mannbætandi að umgangast slíkan mann sem Óskar.“ Hann var gerður heiðursfélagi Þróttar á sjötugsafmæli sínu 1976 og hlotnaðist að auki allar æðstu heiðursveitingar innan íþróttahreyfingarinnar.

Sögu- og minjanefnd

Nú í lok síðasta árs skipaði aðalstjórn félagsins sérstaka sögu- og minjanefnd í tilefni af 70 ára afmælis félagsins 2019. Markmið nefndarinnar er að safna, skrá og miðla sögu félagsins; hvort sem um er að ræða muni, skjöl, myndir eða annað sem tengist sögu félagsins. Í nefndinni sitja Helgi Þorvaldsson, Sigurður K. Sveinbjörnsson, Gunnar Baldursson, Sölvi Óskarsson og Sigurlaugur Ingólfsson; sem er formaður hennar.

Á næstu vikum mun nefndin leitast eftir að hafa upp á munum og öðru því sem tengist sögu félagsins; og geta áhugasamir Þróttarar sem eiga í fórum sínum muni haft samband við formann nefndarinnar á tölvupóstfanginu sigurlaugur.ingolfsson@reykjavik.is.