Síðasta „Lambalæri að hætti mömmu“ fyrir sumarfrí verður 10.maí.


Þemað verður Pepsi Max deildin í knattspyrnu en þann 10.maí verður tveimur umferðum lokið og því hægt að gera sér einhverja grein fyrir því hvernig deildin muni spilast. Þeir Logi Ólafsson, þjálfari í deildinni til margra ára, Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður, sem veit manna mest um deildina og Atli Viðar Björnsson, leikmaður í deildinni til fjölda ára og nýhættur, munu verða gestir okkar og ræða um möguleika liðanna og svara spurningum úr sal. Þeir munu einnig ræða Inkasso deildina, en þar er Þrótti spáð fimmta sæti af þjálfurum deildarinnar.

Við munum verða aftur í Laugardalshöllinni, föstudaginn 10.maí kl.12.00.

Þeir Sigurður K. Sveinbjörnsson í sigurdurks@simnet.is og Helgi Þorvaldsson í síma 821-2610, munu taka við skráningum til hádegis miðvikudaginn 8.maí.

Verðið er kr. 2500.- og allir eru velkomnir, Þróttarar og ekki Þróttarar.

Kveðja, HM-hópurinn

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Sigurður Sveinsson, eða Siggi Sveins, handknattleiksmaður.

Sigurður Valur Sveinsson, 1959-, hóf ungur að iðka bæði knattspyrnu og handbolta með Þrótti. Hann hóf ferilinn á báðum vígstöðvum sem markmaður, en eftir að handboltinn varð ofan á söðlaði hann um og gerðist skytta; eða eins og hann kemst sjálfur að orði: „ég gerði mér grein fyrir því að maður þarf að vera nokkuð skrítinn til að láta kasta knetti í sig í tíma og ótíma“. Í 3. flokki var Siggi í Íslandsmeistaraliði; og veturinn 1974-1975 hóf hann að leika fyrir meistaraflokk; en veturinn eftir varð Þróttur Reykjavíkurmeistari.

Eftir að hafa spreytt sig með Olympia Helsingborg, í Svíþjóð, á árunum 1977 til 1979, sneri Siggi aftur í Þrótt; en framundan var mikil rússibanareið þar sem Þróttur hafði að skipa einu besta handboltaliði Evrópu. Liðið vann sig upp úr 2. deild 1980; og veturinn eftir háði Þróttur harða rimmu við Víking um Íslandsmeistaratitilinn; en Víkingar höfðu að lokum betur. Siggi var markahæstur það keppnistímabilið, með 135 mörk. Árið 1981 léku þessi tvö lið svo til úrslita um Bikarmeistaratitilinn í troðfullri Laugardalshöll; og nú voru það Þróttarar sem höfðu betur, 21-19. Siggi kemst svo að orði um bikarmeistaraliðið: „Við vorum kannski ekki með allra bestu leikmennina en hjartað var til staðar; og það er oft það sem gerir gæfumuninn.“ Í þessu fræga bikarmeistaraliði voru auk Sigga kappar á borð við Palla Ólafs, Óla H, Sveinlaug Kristjáns, Jens Jensson, Óla Ben og fleiri.

Árið eftir, 1982, tók við annað og stærra ævintýri; en Þróttur lék þá í Evrópukeppni Bikarhafa. Fyrstu mótherjar Þróttar voru Kristianssand IF frá Noregi. Eftir tvo sigurleiki gegn þeim voru næstu mótherjar Sittardia 48 frá Hollandi. Þróttur tapaði fyrri leiknum í Hollandi; en 20-15 sigur heima tryggði þátttöku í næstu umferð. Næstu andstæðingar Þróttara voru Pallamano Tacca frá Ítalíu; og áttu Þróttarar ekki í miklum vandræðum með ítalska liðið og unnu báða leikina örugglega. Fyrir vikið var Þróttur kominn í undanúrslit; þar sem andstæðingarnir voru Dukla Prag frá þáverandi Tékkóslóvakíu. Í fyrri leiknum, heima, sigruðu Dukla menn 21-17. Seinni leikurinn var æsispennandi og skiptust liðin á að leiða leikinn; en að lokum hafði Dukla Prag sigur, 23-19. Ótrúlegu ævintýri var lokið; en árangur Þróttar er sá næst besti í sögu íslenskra félagsliða; aðeins Valsmenn hafa komist lengra í Evrópukeppninni.

Því miður fór að halla undan fæti hjá handknattleiksdeild í kjölfarið, en hjá Sigga tók við langur og árangursríkur atvinnumannaferill, með þýsku liðunum Nettelstedt, Lemgo, Dortmund og Atletico Madrid frá Spáni. Auk þess lék hann fjölmarga leiki með íslenska landsliðinu; en hann lék sinn fyrsti A-landsleikur var leikinn 1977;  þá 18 ára gamall.

Þróttur endurvakti handboltann upp úr aldamótum; en hefur enn ekki tekist að leika í efstu deild, en meðal helstu burðarása í liðinu nú er Styrmir sonur Sigga. Aðspurður um framtíð handboltans hjá Þrótti segir Siggi að áherslan hafi beinst of mikið á knattspyrnuna; en segir: „ég vona svo sannarlega að handboltinn lifi hjá Þrótti um ókomna tíð og það væri gaman að sjá þá í efstu deild einhver næstu árin. Lifi Þróttur.“