Atli Arason, 1952-, varð fyrsti formaður Tennisdeildar Þróttar þegar hún var stofnuð í júní 1989.  Fyrsta verkefni stjórnar hans var að koma upp aðstöðu fyrir félagana og var ákveðið að byggja hana upp við suðurenda malarvallarins í Sæviðasundinu, en þar var hægt að koma fyrir þremur tennisvöllum ásamt æfingaaðstöðu.  Hafist var handa vorið 1990 og samstilltu átaki félaga deildarinnar, sem voru mjög svo viljugir að vinna í sjálfboðavinnu , og þýsks fyrirtækis sem sá um lagningu á gervigrasinu. Voru vellirnir tilbúnir 8.júlí og voru þeir á þeim tíma bestu tennisvellir landsins, sem voru síðan vígðir formlega í ágúst sama ár.  Þá átti aðeins eftir að styrkja girðingar í kringum völlinn, koma upp lýsingu og ljúka æfingasvæðinu.                        Fyrstu keppendur Þróttar tóku þátt í Íslandsmótinu strax á fyrsta ári og unnu til átta verðlauna, þar af einn Íslandsmeistaratitil.  Félagar voru orðnir 160 talsins þegar þarna var komið en stofnfélagarnir voru 50.  Strax var byrjað að leggja grunn að markvissri þjálfun fyrir börn og unglinga.  Takmark stjórnar Atla var að gera deildina að þeirri öflugustu og sigursælustu á landinu og er óhætt að segja að það takmark hafi náðst á þeim fimm árum sem Atli var við stjórnvölinn því félagar deildarinnar unnu til tuga verðlauna á þeim mótum sem þeir tóku þátt í, þ.m.t. fjölda Íslandsmeistaratitla.  Árið 1993 eignaðist Þróttur fyrstu landsliðsmenn sína er þau Atli Þorbjörnsson, Katrín Atladóttir og Stefanía Stefánsdóttir voru valin til að keppa fyrir Íslands hönd.

Atli lét af formennsku deildarinnar 1994, eftir að hafa skilað góðu dagsverki.  Þess má til gamans geta að bróðir Atla, Sveinn, tók við stjórn deildarinnar af honum og síðan varð eiginkona Atla, Guðný Eiríksdóttir, þriðji formaður hennar; en hún var „Þróttari vikunnar“ í janúar.  Katrín dóttir þeirra var „Þróttari vikunnar“ í júlí og sonur þeirra Arnþór Ari lék upp alla flokka félagsins, í knattspyrnu, við góðan orðstýr. Atli hefur verið sæmdur silfurmerki Þróttar fyrir störf sín.