Aðalstjórn

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Kjartan Steinbach, alþjóðadómari.

Kjartan Steinbach, 1949 – 2018, hóf ungur að æfa bæði handknattleik og knattspyrnu með Þrótti og lék upp alla flokka með félaginu og var valinn í U-18 ára landsliðið í knattspyrnu árið 1967.

Eftir að ferlinum lauk hóf hann að dæma í handknattleiknum og varð þar alþjóðlegur dómari og síðan eftirlitsmaður. Þá lá leiðin í stjórnarstörf hjá HSÍ, þar sem hann var varaformaður um tíma, framkvæmdastjóri frá 1971 – 1976 og formaður dómaranefndar; EHF – evrópska handknattleikssambandsins -, þar sem hann var eftirlitsmaður um árabil og alþjóða handknattleikssambandsins IHF en þar var hann m.a. formaður dómaranefndar um 8 ára skeið. Það liggur margt eftir hann frá þeim tíma. Meðal annars átti hann sinn þátt í að fá HM 1995 hingað til lands.

Hann var eftirlitsmaður í yfir 140 löndum. Kjartan var sæmdur heiðurskrossum ÍSÍ og HDSÍ, en það var fyrsti krossinn sem dómarasambandið veitti, árið 2015 og gullmerki HSÍ fyrir frábær störf í þágu handknattleiksins á Íslandi. Hann var gerður að heiðursfélaga IHF 2004. Síðustu árin var hann félagi í skákklúbbi Þróttar.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Magnús Pétursson, betur þekktur sem Maggi Pé.

Magnús Vignir Pétursson, 1932 – , var aðeins á sautjánda árinu þegar Þróttur var stofnaður og var einn af stofnfélögunum.  Hann hóf strax þátttöku í handknattleik og knattspyrnu, auk þess að vera einn af forvígismönnum að skákæfingum í félaginu og þegar stofnuð var bridgedeild var hann kosinn formaður hennar strax á þriðja ári hennar og gegndi þeirri stöðu í tvö ár.  Þetta dugði honum ekki og var hann fljótlega farinn að þjálfa yngri flokka félagsins.                                            

Árið 1950 tók hann dómarapróf í knattspyrnunni og tók það starf föstum tökum og náði langt, varð landsdómari 1956 og alþjóðlegur FIFA-dómari 1965.  Hann starfaði í um 30 ár og dæmdi víða um lönd.  Magnús dæmdi einnig í handknattleik og var þar í fremstu röð og með alþjóðleg réttindi.                Hann var að auki innflytjandi íþróttavöru og naut félagið góðs af því um árabil því hann var ósínkur á stuðninginn við það. 

Maggi Pé, eins og hann var alltaf kallaður hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, KSÍ, HSÍ, ÍBR og KRR, fyrir störf sín.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er að þessu sinni handboltakempan Helga Emilsdóttir. Helga var fremst meðal jafningja í sigursælu handknattleiksliði Þróttar á 6. áratug 20. aldar. Helga situr á meðfylgjandi mynd, í fremri röð lengst til vinstri.

Stór tíðindi gerðust á Grímsstaðaholtsvellinum við enda Fálkagötu sumarið 1952. Voru  þar saman komar valkyrjur miklar ásamt manni með flautu í munni. Sá hét Ásgeir Benediktsson, flottur strákur, kátur og skemmtilegur og ágætur þjálfari.  Hans hlutverk var að þjálfa handboltalið kvenna í Þrótti. Líklega hafa stofnendurnir Halldór Sigurðsson og Eyjólfur sundkappi viljað vettvang fyrir ungar konur Þróttarhverfanna. Fyrsta árið voru Ásthildur Pétursdóttir og Fjóla Magnúsdóttir fremstar í flokki stelpnanna, en síðar fell það í  hlut Helgu Emils að taka við keflinu.

Framundan voru þrotlausar æfingar Þróttarkvenna undir stjórn Ásgeirs. Þær fengu inni í Íþróttahúsi Háskóla Íslands og æfðu vel. Svo fór að veturinn 1956 – 1957 voru lið Þróttar komin með meistarabrag, urðu Íslandsmeistarar í öllum flokkum kvenna. Glæsilegt það!  2.flokkur varð einnig Íslandsmeistari 1952 og 1953 auk Reykjavíkurmeistaratitils seinna árið. Helga var að sjálfsögðu í þeim liðum.

Fyrsta kvennalandsliðið var valið 1956,  Helga og Elín Guðmundsdóttir úr Þrótti voru valdar í liðið. „Fyrsti landsleikur okkar var í Osló, síðan héldum við til Helsinki og kepptum á fyrsta Norðurlandamótinu. Þar unnum við Finna. Þetta hófst 19. júní 1956. Við stelpurnar í þessu liði höfum hist árlega þennan dag, kvenréttindadaginn, og gerum enn,” segir Helga. Við það má bæta að Þróttarstelpurnar hittast reglulega og hafa gert árum saman. Þar ber Þrótt á góma reglulega eins og vænta má.

Hápunktur ferilsins var svo 1964. Þá fór fram á Laugardalsvelli Norðurlandamót kvenna, stærsta íþróttamót sem haldið hafði verið á Íslandi til þessa. Tvær Þróttarstelpur voru í landsliðinu, Helga Emilsdóttir og  Margrét Hjálmarsdóttir.  Auk þess að keppa fyrir hönd Þróttar sat hún í aðalstjórn Þróttar í fimm ár.

Helga og maður hennar Halldór Ingvason, fluttu til Grindavíkur. Auðvitað kallaði það á að kraftar Helgu yrðu nýttir í þágu íþróttanna. Grindvískar konur fóru að iðka handbolta. “Mig minnir að það hafi verið í Þjóðviljanum fyrirsögn um “grindvískar húsmæður á Hálogalandi”. Eitthvað var það í þeim dúr.

Þau Helga og Halldór ráku fyrst bókabúð í kjallara húss tónskáldsins Sigvalda Kaldalóns. Rekstur þeirra stækkaði þegar þau tóku að sér að reka BP bensínsstöð sem byggð var í bænum. Bókabúðina fluttu þau í bensínstöðina og ráku þá búð í 40 ár, þegar þau seldu reksturinn. Þau hjón eignuðust einn son, sonurinn átti þrjú börn, og nú eru Helga og Halldór komin með tvö barnabarnabörn.

“Það er fyrir öllu að heilsan er góð hjá okkur. Ég bið að heilsa öllum Þrótturum og vona að vel gangi, “ sagði Helga Emilsdóttir, sá gamli listamaður af handboltavellinum.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Einar Jónsson. Einar Jónsson, 1912 – 1991, var þriðji formaður félagsins. Hann kom inn í starf Þróttar sem allreyndur félagsmálamaður, var í forystusveit í sínu stéttarfélagi, Múrarafélagi Reykjavíkur. Einar var kjörinn formaður Þróttar á aðalfundi 1953 og gegndi formennsku tvö starfsár. Eins og svo margir forystuenn félagsins kom Einar inn í starfið í Þróttarbragganum, stundaði bridgeæfingar og keppni. Þaðan lá leiðin til ýmissa starfa sem vinna þurfti fyrir félagið. Einar gat ekki gegnt störfum síðara árið en var þó alltaf nálægur og fylgdist vel með starfinu. Einar þótti einkar lipur samningamaður, traustur og samviskusamur.