Sögu- og minjanefnd

Nú í lok síðasta árs skipaði aðalstjórn félagsins sérstaka sögu- og minjanefnd í tilefni af 70 ára afmælis félagsins 2019. Markmið nefndarinnar er að safna, skrá og miðla sögu félagsins; hvort sem um er að ræða muni, skjöl, myndir eða annað sem tengist sögu félagsins. Í nefndinni sitja Helgi Þorvaldsson, Sigurður K. Sveinbjörnsson, Gunnar Baldursson, Sölvi Óskarsson og Sigurlaugur Ingólfsson; sem er formaður hennar.

Á næstu vikum mun nefndin leitast eftir að hafa upp á munum og öðru því sem tengist sögu félagsins; og geta áhugasamir Þróttarar sem eiga í fórum sínum muni haft samband við formann nefndarinnar á tölvupóstfanginu sigurlaugur.ingolfsson@reykjavik.is.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Kjartan Steinbach, alþjóðadómari.

Kjartan Steinbach, 1949 – 2018, hóf ungur að æfa bæði handknattleik og knattspyrnu með Þrótti og lék upp alla flokka með félaginu og var valinn í U-18 ára landsliðið í knattspyrnu árið 1967.

Eftir að ferlinum lauk hóf hann að dæma í handknattleiknum og varð þar alþjóðlegur dómari og síðan eftirlitsmaður. Þá lá leiðin í stjórnarstörf hjá HSÍ, þar sem hann var varaformaður um tíma, framkvæmdastjóri frá 1971 – 1976 og formaður dómaranefndar; EHF – evrópska handknattleikssambandsins -, þar sem hann var eftirlitsmaður um árabil og alþjóða handknattleikssambandsins IHF en þar var hann m.a. formaður dómaranefndar um 8 ára skeið. Það liggur margt eftir hann frá þeim tíma. Meðal annars átti hann sinn þátt í að fá HM 1995 hingað til lands.

Hann var eftirlitsmaður í yfir 140 löndum. Kjartan var sæmdur heiðurskrossum ÍSÍ og HDSÍ, en það var fyrsti krossinn sem dómarasambandið veitti, árið 2015 og gullmerki HSÍ fyrir frábær störf í þágu handknattleiksins á Íslandi. Hann var gerður að heiðursfélaga IHF 2004. Síðustu árin var hann félagi í skákklúbbi Þróttar.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Magnús Pétursson, betur þekktur sem Maggi Pé.

Magnús Vignir Pétursson, 1932 – , var aðeins á sautjánda árinu þegar Þróttur var stofnaður og var einn af stofnfélögunum.  Hann hóf strax þátttöku í handknattleik og knattspyrnu, auk þess að vera einn af forvígismönnum að skákæfingum í félaginu og þegar stofnuð var bridgedeild var hann kosinn formaður hennar strax á þriðja ári hennar og gegndi þeirri stöðu í tvö ár.  Þetta dugði honum ekki og var hann fljótlega farinn að þjálfa yngri flokka félagsins.                                            

Árið 1950 tók hann dómarapróf í knattspyrnunni og tók það starf föstum tökum og náði langt, varð landsdómari 1956 og alþjóðlegur FIFA-dómari 1965.  Hann starfaði í um 30 ár og dæmdi víða um lönd.  Magnús dæmdi einnig í handknattleik og var þar í fremstu röð og með alþjóðleg réttindi.                Hann var að auki innflytjandi íþróttavöru og naut félagið góðs af því um árabil því hann var ósínkur á stuðninginn við það. 

Maggi Pé, eins og hann var alltaf kallaður hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, KSÍ, HSÍ, ÍBR og KRR, fyrir störf sín.