Aðalstjórn

Íþróttamaður Þróttar 2018 er Sóley María Steinarsdóttir

Sóley María Steinarsdóttir hefur verið einn af lykilmönnum meistaraflokks Þróttar í fótboltanum og  undanfarið verið í leikmannahópi yngri landsliða Íslands þar sem hún hefur þegar leikið 21 leik.  Hún var s.l. tímabil valin í lið ársins í Inkassodeildinni af leikmönnum og þjálfurum liðanna í deildinni. Sóley er Þróttari í húð og hár, hefur leikið og æft með félaginu frá unga aldri og er klárlega einn af framtíðarleikmönnum liðsins, góð fyrirmynd innan vallar sem utan sem tekur alla leiki og æfingar alvarlega með bros á vör.  Skemmtilegur félagsmaður með metnað sem á klárlega eftir að koma henni enn lengra í sinni íþrótt. Úr góðum hópi íþróttamanna innan félagins er Sóley María íþróttamaður Þróttar á árinu 2018.

Lifi Þróttur

Þróttari ársins 2018 er Dagný Gunnarsdóttir.

Dagný er fulltrúi í meistaraflokksráði kvennaliðs Þróttar í fótbolta og stjórnarmaður í knattspyrnudeild.  Hún er jafnframt foreldri iðkenda í félaginu, m.a. fyrirliða okkar í kvennaliðinu, Gabríelu, og hefur komið að starfi þeirra allt frá fyrstu skrefum þeirra innan félagsins.  Dagný hefur haldið utan um meistaraflokks starf stúlknanna undanfarin ár auk þess að starfa að krafti að þeim verkefnum sem við stöndum fyrir, s.s. heimaleikjum, Rey Cup, Októberfest o.fl. og við Þróttarar erum afar þakklátir fyrir.  Dagný er svo sannarlega Þróttari ársins og er vel að því komin.

 

Lifi Þróttur

Kæru Þróttarar nær og fjær.

Á árinu 2018 tókust Þróttarar á við mörg krefjandi og skemmtileg verkefni. Starfið í félaginu var að venju bæði gott og öflugt. Sem fyrr er megináhersla aðalstjórnar félagsins á að ná fram nauðsynlegum umbótum á aðstöðumálum félagsins, í fyrstu hvað varðar inniíþróttir og er nú svo komið að þau mál þola enga bið.

Fulltrúar Þróttar hafa á árinu tekið þátt í að undirbúa byggingu nýs íþróttahúss og er hægt að fullyrða að sú vinna hefur aldrei í sögu félagsins komist jafn langt og nú. Von aðalstjórnar er sú að hægt verði að taka fyrstu skóflustungu að nýju húsi á árinu 2019, sem væri mjög við hæfi enda fagnar Þróttur 70 ár afmæli á því herrans ári. Hins vegar er það svo, eins og allir vita að kálið er ekki sopið fyrr en í ausuna er komið og við skulum ekki fagna fyrr en við höfum eitthvað fast í hendi.

Árangur Þróttara var víða góður á árinu, meistaraflokkur karla í handknattleik hefur eflst mjög þrátt fyrir að glíma við aðstöðuleysi og var nærri því síðastliðið vor að tryggja sér sæti í efstu deild. Bæði karla- og kvennalið í knattspyrnu náðu ágætum árangri í næst efstu deild.  Blaklið Þróttar eru mjög efnileg og allar deildirnar eiga það sameiginlegt að byggt er á ungu fólki og uppöldum Þrótturum. Við trúum því að það sé rétta leiðin. Með því að hlúa vel að börnum og unglingum í félaginu munum við uppskera ríkulega.

Að venju hefur mikið mætt á starfsfólki félagsins, stjórnarfólki í deildum, unglingaráðum, flokksráðum og öðrum sjálfboðaliðum og sú vísa er aldrei of oft kveðin, að án þessa fólks væri Þróttur ekki svipur hjá sjón. Það er því ástæða til að þakka mjög vel unnin störf á árinu 2018.  Að venju var góður bragur á mótahaldi félagsins, VÍS mót og ReyCup tókust bæði vel og sýndu enn og aftur þann kraft sem í félaginu býr.

Við sem unnið höfum að því undanfarin misseri að undirbúa framtíð Þróttar og máta félagið við þær breytingar sem eru að verða á umhverfi félagsins í Laugardalnum og þær breytingar sem þétting byggðar í nágrenni Laugardalsins mun hafa í för með sér, teljum að félagið eigi mikla möguleika til að vaxa og eflast, sennilegast meiri en nokkru sinni. Til þess að þetta gerist verðum við þó öll sem eitt að vera óþreytandi að berjast fyrir hagsmunum félagsins og við þurfum að láta rödd okkar hljóma hátt og snjallt.

Á árinu 2019 fagnar Þróttur 70 ára afmæli sínu. Við skulum taka höndum saman og láta afmælisárið verða eftirminnilegt, innan vallar sem utan, í starfi og leik.

Ég þakka öllum Þrótturum góðar stundir á árinu 2018 og óska ykkur öllum velfarnaðar.

Lifi Þróttur

Kristján Kristjánsson, varaformaður