Blak

Eldey stendur í ströngu með landsliðinu í blaki.

Eldey Hrafnsdóttir er ein af þeim 14 leikmönnum sem Borja González Vicente og Antonio Alcaraz Serrano þjálfarar kvennalandsliðs Íslands völdu og taka þátt í síðastu leikjum landsliðsins í undankeppni EM. Liðið beið lægri hlut fyrir Slóveníu á útivelli um síðustu helgi og spilar við Belgíu i dag miðvikudaginn 9. janúar í íþróttahúsinu í Digranesi. við hvetjum alla til að mæta og styðja við bakið á stelpunum okkar.

Áfram Ísland

Íþróttamaður Þróttar 2018 og Þróttari ársins

Á gamlársdag verður valinn Íþróttamaður Þróttar sem og Þróttari ársins 2018.  Afhending fer fram í félagsheimili okkar Þróttara kl. 12:00 og eru Þróttarar hvattir til að mæta. Boðið verður upp á léttar veitingar og svo gefst auðvitað tækifæri til að kaupa flugelda fyrir kvöldið.

Tilnefningar deilda til íþróttamanns Þróttar fyrir árið 2018 eru eftirfarandi :

Blakdeild:  Blakdeild Þróttar hefur valið Elísabetu Nhien Yen Huynh sem blakmann Þróttar árið 2018.  Elísabet er fædd árið 2000 og hefur æft blak og leikið með Þrótti frá árinu 2012.  Hún hefur undanfarin ár komið hægt og rólega inn í meistaraflokk og heldur betur látið til sín taka á vellinum í ár.  Hún er frábær varnarmaður og gríðarlega klár sóknarmaður. Hún er jafnframt með eitraðar uppgjafir og hefur í ár komið ísköld inn á völlinn í erfiðum stöðum og látið til sín taka.  Hún er með stáltaugar þessi ungi og efnilegi leikmaður og er góð fyrirmynd sem á framtíðina fyrir sér.

Handknattleiksdeild:  Handknattleikdeild Þróttar hefur valið Styrmi Sigurðarson sem handboltamann ársins 2018.  Styrmir er 26 ára og uppalinn hjá Þrótti.  Hann hefur leikið frábærlega á árinu og átti stóran þátt í því að liðið komst í umspil um sæti í úrvalsdeild.
Liðið er í hörkubaráttu í deildinni í ár og á góðri leið með að tryggja sig í umspil um sæti í úrvalsdeild 2019 en einnig er liðið ennþá í bikarnum og eru þar komnir í 8 liða úrslit!  Styrmir gegnir lykilhlutverki í liði Þróttar og hefur bætt sig gríðarlega á árinu.   Handknattleiksdeildin er mjög stolt af Styrmi og óskar honum til hamingju með frábært ár með von um að 2019 verði enn betra!

Knattspyrnudeild:  Knattspyrnudeild Þróttar hefur valið Sóley Maríu Steinarsdóttur sem knattspyrnumann ársins 2018.  Sóley María var valin besti leikmaður knattspyrnudeildar Þróttar árið 2018 en hún hefur verið mikilvægur hluti af meistaraflokki síðustu ár þrátt fyrir ungan aldur. Hún er ein af tveimur leikmönnum Þróttar sem valdar voru í úrvalslið Inkasso deildarinnar þetta tímabilið en þjálfarar og fyririrliðar liða deildarinnar völdu liðið.  Sóley María hefur verið fastamaður í yngri landsliðum með rúmlega 20 skráða leiki og keppti hún m.a. fyrir hönd Íslands í undankeppni EM á þessu ári. Sóley er uppalinn Þróttari og frábær fyrirmynd bæði innan sem utan vallar.