Meistaraflokkur kvenna

U17 landslið stúlkna í 4 sæti á Evrópumótinu í blaki

Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 17 ára og yngri tapaði í gær bronsleiknum á móti Finnlandi 3-0 (25-13, 25-18, 25-16). Íslensku stelpurnar lenda því í fjórða sæti á NEVZA mótinu, en átta lið tóku þátt.

Allar þrjár hrinurnar byrjuðu frekar jafnt og stóð íslenska liðið vel í því finnska. Íslenska liðið var hins vegar alltaf að elta, og náði aldrei góðu forskoti í leiknum.

Við óskum Eldey og stelpunum kærlega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim á blakvellinum í framtíðinni.

Lifi Þróttur og Lifi Ísland.

Stelpurnar í U17 ára landsliði Íslands komnar í undanúrslit

U17 landslið stúlkna var rétt í þessu að sigra Noreg 3-1 (26-24, 30-32, 25-12, 25-12). Með sigrinum tryggðu stelpurnar sig inn í undanúrslit á NEVZA mótinu. Stelpurnar mæta Svíþjóð í undanúrslitum kl 15:30 í dag.

Leikurinn í dag byrjaði hörkuspennandi en fyrstu tvær hrinurnar fóru báðar í upphækkun. Íslensku stelpurnar tóku fyrstu hrinuna 26-24, en töpuðu næstu 30-32. Ekkert virtist skilja á milli liðanna, en þá settu íslensku stelpurnar í annan gír og völtuðu yfir þær norsku í þriðju og fjórðu hrinu. Þriðja og fjórða hrina fóru báðar 25-12.

Önnur stigahæst í liðinu var Þróttarinn Eldey Hrafnsdóttir með 14 stig.

Með sigrinum tryggðu stelpurnar sig áfram inn í undanúrslitin, en þar mæta stelpurnar Svíþjóð. Ísland spilaði á móti Svíþjóð í riðlaspilinu á mánudaginn og tapaði í spennandi leik 3-1. Undanúrslitaleikurinn í dag er kl 15:30 og er hægt að horfa á hann í beinni útsendingu hér.