Fréttir

Sigurður Þórðarson er „Skákmeistari“ og „Stigameistari Þróttar“ 2019.

Síðasta umferð var tefld á mánudag og fóru leikar sem hér segir: Bragi vann Helga, Óli Viðar vann Theodór og Sigurður vann Davíð. Skák Júlíusar og Sölva var frestað. Með sigrinum
tryggði Sigurður sér efsta sætið í mótinu með 7 vinninga, en Júlíus getur aðeins náð 6,5 vinningum með sigri í frestuðu skákinni. Óli Viðar er einnig með 5,5 vinninga en hefur lokið skákum sínum.
Í hraðskákinni var hart barist og fór svo að tveir urðu jafnir með 4,5 vinninga, þeir Óli Viðar og Sigurður, þriðji varð Davíð
með 4 vinninga. Tefldar voru sex umferðir. Þegar ein umferð er eftir er Sigurður þegar búinn að tryggja sér sigurinn, Júlíus er annar og Davíð þriðji.

Síðasta umferðin í hraðskákinni verður
tefld 1.apríl.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Haraldur Snorrason, fimmti formaður Þróttar.

Haraldur Snorrason, 1913 – 1997 , var fimmti formaður Þróttar 1960 og gegndi því starfi í tvö ár upp á dag.  Auk þess var hann potturinn og pannan í félagsstarfinu um langt árabil.  Hann sat í stjórn félagsins tólf erfiðustu árin, frá 1950 til 1962.  Eftir það var hann sístarfandi fyrir Þrótt, m.a. sem formaður knatspyrnunefndar en í þeirri nefnd starfaði hann í 14 ár.  Hann var fulltrúi Þróttar í KRR 1956-1958 og þá sat hann í varastjórn KSÍ í 18 ár.                                                                                      

Halli Snorra, eins og hann var alltaf kallaður fæddist í Reykjavík 30.september 1913, fluttist fimm ára austur í Flóa en sneri til baka 14 ára gamall.  Hann hreyfst af starfi Þróttar og tók þátt í spilamennsku Bridsdeildarinnar í „Bragganum“ við Ægisíðuna og áður en hann vissi af var hann á kafi upp fyrir haus í störfum fyrir félagið. 

Hann þótti sérstaklega glúrinn í peningamálum félagsins og var kallaður fjámálaráðherra hins tóma kassa.  Hann stóð fyrir ótal fjáröflunum ásamt Bjarna Bjarnasyni.  Haraldur var sæmdur gullmerkjum Þróttar, ÍSÍ og KSÍ.  Hann lést 31.mars 1997, 84 ára að aldri.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þegar Haraldur hlaut gullmerki Þróttar, og var það Guðjón Sverrir Sigurðsson, þáverandi formaður Þróttar, sem afhenti Haraldi merkið.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Guðrún Inga Sívertsen, knattspyrnukona í Þrótti og stjórnarmaður í KSÍ til fjölda ára.

Guðrún Inga Sívertsen, 1976 -, var í hópi þeirra kvenna sem endurvöktu meistaraflokk kvenna í knattspyrnu hjá Þrótti sumarið 1999. Á ferlinum lék hún 85 leiki fyrir Þrótt. Segja má að hún hafi tekið miklu ástfóstri við félagið, og vakti fljótlega athygli fyrir vasklega framgöngu. Sumarið eftir, árið 2000, var hún ráðin framkvæmdastjóri félagsins, rétt 24 ára gömul. Síðar tók hún sæti í aðalstjórn þar sem hún gegndi embætti gjaldkera og síðar varaformanns.

Árið 2007 náði GunnInga, eins og hún er gjarnan kölluð, kjöri í stjórn Knattspyrnusambands Íslands. Innan vébanda KSÍ gegndi hún sambærilegum trúnaðarstöðum og hjá Þrótti, fyrst sem gjaldkeri stjórnar sambandsins og síðar sem varaformaður. Hún lét af störfum fyrir sambandið fyrr á þessu ári eftir 12 ára farsælt starf. Í starfi sínu fyrir sambandið kom til kasta hennar margskonar verkefni; en uppgangur kvennaknattspyrnunnar stendur henni þó næst. Upp úr stendur: „Mikill árangur jafnt utan vallar sem innan“ og nefnir sem dæmi „ stórmót, jöfnun bónusgreiðsla landsliðsmanna og fullur Laugardalsvöllur á heimaleik kvennalandsliðsins s.l. haust“.

Þó hún eigi ekki lengur sæti í stjórn KSÍ er hún hvergi nærri hætt afskiptum af knattspyrnu. Að lokum segir GunnInga „Það er gott að vera Þróttari og ég er stolt af því. Starfsemi félagsins er í góðum höndum og það eru spennandi tímar framundan, sem verður gaman að fylgjast með og taka þátt í.“

Guðrún Inga hefur bæði hlotnast gullmerki ÍSÍ og KSÍ.