Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Guðmundur E. Pálsson, 10. formaður Þróttar og blakari.

Guðmundur E. Pálsson, 1952 – 1998, varð 10. formaður Þróttar 1981 og gegndi því starfi í tæpt ár en flutti þá til Noregs og þótti mörgum skaði að missa hann úr því starfi enda traustur maður sem hélt um stjórnvölinn.  

Hann var einn þeirra ungu manna sem komu með blakið í Þrótt og var fyrsti formaður blakdeildarinnar og ævinlega í forystusveit þeirrar deildar.  Kjarninn í fyrsta meistaraflokki Þróttar voru strákar sem höfðu verið saman í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Þar hafði Guðmundur verið formaður nemendafélagsins, og við stofnun blakdeildar Þróttar var hann einnig kjörinn formaður hennar. Af þeim sökum festist við hann gælunafnið Fommi, sem margir þekkja hann betur undir.

Guðmundur lék blak með Þrótti til 1992 en auk þess lék hann 50 landsleiki.  Hann var valinn blakmaður ársins 1976.  Guðmundur varð margfaldur Íslands- og Bikarmeistari með Þrótti og átti sinn stóra þátt í því að deildin varð eins sigursæl og raun ber vitni. 

Guðmundur E. Pálsson lést af slysförum aðeins 45 ára að aldri.  Varð hann harmdauði fjölmörgum, ekki síst stórum vinahópi í Þrótti.

Jason Ívarsson, sem lengi starfaði við hlið Guðmundar minnist hans með þessum orðum: „Hann var vakinn og sofinn yfir framgangi blaksins hjá Þrótti. Hann lagði mikla áherslu á starf yngri flokka félagsins til að tryggja eðlilega endurnýjun innan liðsins. Sem dæmi um það má nefna að eitt árið bauðst hann til þess að þjálfa meistaraflokkinn launalaust, ef við hinir sæjum um að þjálfa yngri flokkanna. Fommi var einstakur félagi og heimili hans stóð alltaf opið hvort sem það var fundur fyrir leiki þar sem leikaðferðin var lögð upp eða þá þegar glæstum sigrum var fagnað.“

Sonur Guðmundar, Ólafur Heimir lék lengi með meistaraflokki Þróttar, íslenska landsliðinu auk þess að leika blak erlendis um tíma. Meðal margra eldri blakara í Þrótti er Ólafur Heimir ávallt kallaður Fommason. Blakdeild Þróttar hefur um árabil valið þann blakmann sem hefur þótt skara fram úr hjá félaginu, og hefur viðkomandi þá hlotið Fommabikarinnar; sem var gefinn félaginu í minningu um Guðmund.