Handbolti

Skýr skilaboð Þróttar – hvers kyns ofbeldi innan félagsins verður ekki liðið!

Undanfarin misseri hafa birst yfirlýsingar kvenna í íþróttum um kynferðislega áreitni, ofbeldi og óviðeigandi framkomu í þeirra garð.  Knattspyrnufélagið Þróttur sendir skýr skilaboð til allra sem starfa innan félagsins og íþrótta almennt – hvers kyns ofbeldi og ósæmileg hegðun í garð einstaklinga innan okkar raða verður ekki liðið!

Innan félagsins eru virkar boðleiðir til þess að koma tilkynningum um hvers kyns ofbeldi eða óviðeigandi framkomu á framfæri.

 

Siða – og starfsreglur Þróttar

Nýverið hafa siða – og starfsreglur Þróttar verið endurskoðaðar og uppfærðar en þær má finna hér Siða og starfsreglur Þróttar   Öllum þjálfurum innan félagsins, í öllum deildum, ber að kynna sér þessar reglur og fylgja þeim í hvívetna.  Á næstu vikum verður fundað með öllum þjálfurum og öðrum starfsmönnum Þróttar þar sem sérstaklega verður farið yfir umræddar reglur þær kynntar rækilega.  Foreldrar og forráðamenn iðkenda eru jafnframt hvattir til þess að kynna sér reglurnar.

 

Jafnréttisstefna Þróttar

Jafnréttisstefna Þróttar er aðgengileg á heimasíðu félagsins en hana má finna hér Jafnréttisstefna Þróttar  Allir félagsmenn Þróttar eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu.

Kynferðisleg áreitni og einelti er framkoma og hegðun sem ekki er liðin innan Þróttar.

Með kynferðislegri áreitni er átt við kynferðislega hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í

óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða

og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni

getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn á það jafnframt við um klám hvort sem er í myndum

eða máli. Klám, í hvaða mynd sem er telst einnig kynferðisleg áreitni.

 

Eineltisáætlun Þróttar – eineltisteymi

 

Innan Þróttar er starfandi eineltisteymi sem ætlað er að bregðast við öllum tilkynningum sem kunna að berast um einelti innan félagsins. Öllum þjálfurum hefur verið kynnt áætlunin en hún skiptist í tvo hluta, þ.e. forvarnir annars vegar og viðbragðsáætlun hins vegar.   Í stuttu máli gengur viðbragðsáætlunin út á eftirfarandi:

  1. Tilkynning um einelti: Eyðublað sem afhent er íþróttastjóra Þróttar.  Íþróttastjóri kemur málinu áfram á eineltisteymi Þróttar sem kemur því í þann farveg sem við á.

Teymið skipa:                      Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Funi Sigurðsson, sálfræðingur

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri hjá Velferðasviði

Guðberg Jónsson, sálfræðingur

 

  1. Könnunarþrep – Eineltisteymi aflar frekari gagna, rætt við forráðamenn og hugsanlega þann sem tilkynnir um einelti
  2. Lausnarþrep – ákvörðun um lausnarleið tekin á grundvelli gagna og í samráði við málsaðila
  3. Eftirfylgd – haft samband við forráðamenn þolanda og geranda, ákvörðun tekin um frekari viðbrögð ef þurfa þykir

Öllum er heimilt að tilkynna um einelti, foreldrum, forráðamönnum, iðkendum og þjálfurum.

Samstarfssamningur við Erindi

 

Erindi – samtök um samskipti og skólamál og Þróttur hafa gert með sér samstarfssamning þess efnis að Erindi veiti félaginu fræðslu um samskiptamál barna og unglinga og mögulegan samskiptavanda sem upp getur komið.

Þróttur  ákvað að leggja áherslu á góð samskipti og líðan barna og unglinga í öllu starfi félagsins. Með samningnum markar Þróttur sér skýra stefnu í samskipta- og eineltismálum og samskiptamálum.

Samstarfssamningnum fylgir samskiptaáætlun Erindis sem félagið fylgir eftir. Erindi mun bjóða upp á regluleg námskeið og fræðslu fyrir þjálfara til að tryggja að þeir séu meðvitaðir um samskiptamál og læri leiðir til að greina vandamálin og bregðast við þeim.

Stjórn Þróttar og starfsmenn harma mjög að einstaklingar innan íþróttahreyfingarinnar hafi þurft að þola hvers kyns ofbeldi í tengslum við íþróttastarf og fordæmir með öllu allt ofbeldi í starfsemi hreyfingarinnar.  Þróttur mun bregðast við hvers kyns tilkynningum um ójafnrétti, ofbeldi og einelti innan okkar raða og mun fylgja öllum þeim aðgerðum sem geta gagnast okkur í baráttunni gegn ofbeldi.  Við munum fylgjast vel með framgangi innan Íþrótta -og Ólympíusambands Íslands við mótun aðgerða og fræðslu vegna slíkra mála og leita allra leiða til þess að iðkendum og öðrum líði vel innan félagsins og þeim sé tryggt öryggi innan félagsins.

Skilaboðin eru skýr, hvers kyns ofbeldi verður ekki liðið og við því verður brugðist!  Lifi Þróttur…!

Milan Zegerac til liðs við Þrótt í handboltanum

Þróttur hefur náð samkomulagi við Milan Zegerac um að hann leiki með liðinu út þetta keppnistímabil.  Milan, sem kemur frá serbneska félaginu RK Spartak Vojput, mun spila sinn fyrsta leik með Þrótti gegn Selfossi n.k. fimmtudag í 8 liða úrslitum Coca Cola bikarsins.   Hann er hávaxinn vinstri handar leikmaður sem Þróttur bindur miklar vonir við að styrki liðið í komandi baráttu um sæti í Olís deildinni að ári.

Við bjóðum Milan Zegerac velkominn í Þrótt,  Milan, dobrodošli u Trottur, Lifi Þróttur !