Síðasta „Lambalæri“ fyrir sumarfrí var haldið á föstudag og var fjölmenni.
Gestir voru þeir Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður, sem stýrði umræðum, Logi Ólafsson þjálfari og Atli Viðar Björnsson, f.v. leikmaður FH og nýráðinn sparkspekulant á Stöð2. Þeir ræddu um Pepsi Max deildina og krydduðu umræðuna með léttum sögum úr sparkinu en þar er Logi á heimavelli. Margar spurningar komu úr sal og ekki skemmdi fyrir þegar Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður tók nokkrar léttar gamlar lýsingar úr boltanum.
Við viljum þakka öllum þeim sem lagt hafa leið sína í Laugardalinn í vetur og við hlökkum til að sjá þá sem flesta í september, þegar „Lambalærið“ verður aftur á borðum hjá okkur. Þá viljum við þakka húsráðendum í Laugardalshöll fyrir greiðviknina undanfarna tvo mánuði.

Kveðja, HM-hópurinn.

Síðasta „Lambalæri að hætti mömmu“ fyrir sumarfrí verður 10.maí.


Þemað verður Pepsi Max deildin í knattspyrnu en þann 10.maí verður tveimur umferðum lokið og því hægt að gera sér einhverja grein fyrir því hvernig deildin muni spilast. Þeir Logi Ólafsson, þjálfari í deildinni til margra ára, Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður, sem veit manna mest um deildina og Atli Viðar Björnsson, leikmaður í deildinni til fjölda ára og nýhættur, munu verða gestir okkar og ræða um möguleika liðanna og svara spurningum úr sal. Þeir munu einnig ræða Inkasso deildina, en þar er Þrótti spáð fimmta sæti af þjálfurum deildarinnar.

Við munum verða aftur í Laugardalshöllinni, föstudaginn 10.maí kl.12.00.

Þeir Sigurður K. Sveinbjörnsson í sigurdurks@simnet.is og Helgi Þorvaldsson í síma 821-2610, munu taka við skráningum til hádegis miðvikudaginn 8.maí.

Verðið er kr. 2500.- og allir eru velkomnir, Þróttarar og ekki Þróttarar.

Kveðja, HM-hópurinn

Góð mæting í „Lambalærið“ hjá Atla.

Atli Eðvaldsson, fv. landsliðsþjálfari var ræðumaður hjá okkur á „Lambalærinu“ á föstudag. Atli kom vel undirbúinn og lýsti uppeldisárum sínum í knattspyrnunni og síðan byrjuninni í m.fl.

Vals og þá atvinnuferlinum og landsliðsferlinum en hann átti góðu gengi að fagna í Þýskalandi og með landsliðinu. Atli fékk gott hljóð og gleymdi tímanum og átti töluvert eftir þegar tíminn var úti. Nokkrir sátu eftir og fengu stuttar baksviðssögur frá Atla sem kominn var í ham.

HM-hópurinn