Knattspyrna

Páll Olgeir og Þróttur undirrita samning

Páll Olgeir Þorsteinsson hefur undirritað leikmannasamning við Þrótt sem gildir út tímabilið 2020.

Páll Olgeir sem fæddur er árið 1995 kom til okkar Þróttara síðastliðið sumar en hann er uppalinn í Breiðablik og hefur leikið 11 leiki með liðinu í efstu deild auk þess að eiga leiki með Víkingi og Keflavík í Pepsi-deildinni.  Hann hefur jafnframt leikið 18 landsleiki með yngri landsliðunum og skorað í þeim 2 mörk.

Páll Olgeir kom öflugur inn í lið Þróttar seinni part síðasta tímabils og við erum sannfærð um að framhald verði á í baráttunni sem framundan er.  Lifi…….!

 

Bræður semja við Þrótt

Bræðurnir Ágúst Leó og Lárus Björnssynir hafa gengið til liðs við Þrótt og skrifað undir samninga við félagið sem gilda út keppnistímabilið 2021.  Báðir eru þeir uppaldir Stjörnumenn en Ágúst Leó, sem fæddur er árið 1997,  gekk til liðs við ÍBV fyrir síðasta tímabil og kom við sögu í 8 leikjum með liðinu í Pepsi-deildinni en var svo lánaður til Keflavíkur um mitt sumar þar sem hann lék 3 leiki. Árið 2017 lék hann með Aftureldingu og skoraði 13 mörk fyrir félagið í 20 leikjum.

Lárus er fæddur árið 2000 og lék með 2.flokki Stjörnunnar á síðasta tímabili en hann á jafnframt að baki 10 leiki með yngri landsliðunum.

Við fögnum komu piltanna í Þrótt og bjóðum þá velkomna til leiks í Laugardalinn. Lifi…….!

 

Viktor kveður Þrótt

Markahrókurinn Viktor Jónsson hefur gengið til liðs við ÍA og leikur því ekki með Þrótti næsta keppnistímabil.

Hann var samningsbundinn Þrótti til loka tímabils 2019 en eftir viðræður við Viktor og ÍA náðist samkomulag um að hann myndi ganga til liðs við Skagamenn og reyna fyrir sér í Pepsi-deildinni að ári.

Viktor gekk til liðs við Þrótt fyrir upphaf tímabilsins 2015, lék þá 24 leiki í deild og bikar og skoraði í þeim 22 mörk áður en hann fór aftur yfir í uppeldisfélagið Víking árið 2016.

Hann kom svo aftur til liðs við okkur Þróttara fyrir tímabilið 2017 og á tveimur tímabilum lék hann 41 leik og skoraði 35 mörk og hefur því skorað 57 mörk fyrir Þrótt í 65 leikjum sem er hreint ótrúleg frammistaða.

Við Þróttarar þökkum Viktori með heilum hug frábærar stundir innan vallar sem utan og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Friðrika Arnardóttir og Þróttur endurnýja samning

Markvörðurinn Friðrika Arnardóttir og knattspyrnudeild Þróttar hafa endurnýjað samning sem gildir nú út keppnistímabilið 2020.  Friðrika sem fædd er árið 2000 er uppalinn Þróttari en lék með meistaraflokki Gróttu á síðasta keppnistímabili.  Hún var nýverið valin í 24 leikmanna æfingahóp U19 landsliðsins og sækir æfingar liðsins 9.-11.nóvember n.k.

Nýr samningur er mikið fagnaðarefni og ljóst að þarna er á ferðinni einn af framtíðarleikmönnum Þróttar.  Lifi…….!