2. flokkur karla

Baldur Stefánsson í úrslit á Norðurlandamótinu

U16 ára landslið karla tryggði sér í gær sæti í úrslitaleik Norðurlandamótsins í knattspyrnu með 2-1 sigri gegn Noregi.  Okkar maður Baldur Stefánsson var í byrjunarliði Íslands í gær og lék allan leikinn í góðum sigri sem tryggði úrslitaleik gegn Finnlandi en sá leikur fer fram á morgun, laugardag.  Frábær árangur og góðar fréttir fyrir Þróttara að Baldur leiki stórt hlutverk í liðinu.  Má geta þess til gaman að bróðir Baldurs, Stefán Þórður, var í leikmannahópi meistaraflokks Þróttar í fyrsta skipti í gærkvöldi i sterkum útisigri gegn HK þannig að þetta var ánægjulegur dagur bræðranna sem og allra okkar Þróttara.    Lifi……!!

HM fótboltasumarið er hafið!

Skráning stendur nú yfir á sumaræfingar knattspyrnudeildar Þróttar. Við bjóðum uppá reglulegar æfingar fyrir stráka og stelpur á öllum aldri undir handleiðslu topp þjálfara auk þátttöku í fjölda skemmtilegra móta víða um land. Það verður sannkallað HM fjör hjá Þrótti í allt sumar og nú er rétti tíminn til að skrá sig til leiks!

Skráning iðkenda og upplýsingar um æfingagjöld má nálgast hér: https://www.trottur.is/aefingagjold/ 

Upplýsingar um æfingatíma og skiptingu í flokka má nálgast hér: https://www.trottur.is/um-thrott/aefingatoflur/

Allir nýjir iðkendur eru velkomnir á 1-2 prufuæfingar án endurgjalds og í sumar verða knattspyrnuæfingar ókeypis fyrir stúlkur fæddar 2012-2015 (8 flokkur kvk).

Allar nánari upplýsingar veitir íþróttastjóri Þróttar, Þórir Hákonarson, thorir@trottur.is

Allir með í HM fjörið hjá Þrótti!

Þórhallur Siggeirsson ráðinn til Þróttar

Þórhallur Siggeirsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Gunnlaugs Jónssonar í meistaraflokki karla í knattspyrnu en hann verður jafnframt aðalþjálfari 2.flokks karla hjá félaginu.  Þórhallur er með UEFA-A þjálfaragráðu auk þess að vera með M.Sc gráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík.  Hann hefur mikla reynslu af þjálfun, hefur þjálfað hjá HK, Val og nú síðast hjá Stjörnunni þar sem hann var yfirþjálfari yngri flokka frá 2014-2017.

Við bjóðum Þórhall velkominn í Þrótt og væntum góðs samstarfs við áframhaldandi uppbyggingu félagsins.  Lifi……!!!

Baldur Hannes lék allan leikinn í góðum sigri Íslands

Ísland lék sinn annan leik í U17 ára móti UEFA í Litháen en leikið var gegn heimamönnum.

Þróttarinn Baldur Hannes Stefánsson var í byrjunarliði Íslands og lék allan leikinn í góðum 3-0 sigri en liðið á einn leik eftir í mótinu og er hann gegn Búlgaríu n.k. laugardag.  Þetta var annar leikurinn sem Baldur Hannes leikur með landsliði Íslands sem er efst í mótinu þegar einn leikur er eftir.  Við óskum Baldri til hamingju með leikinn og óskum honum, ásamt öllu landsliðinu, góðs gengis í leiknum á laugardaginn.

Fyrsti landsleikurinn hjá Baldri Hannesi

Baldur Hannes Stefánsson, leikmaður Þróttar, lék sinn fyrsta landsleik í gær þegar hann tók þátt í 2-1 sigri Íslands á Eistlandi á UEFA móti U17 ára sem haldið er í Gargzdai í Litháen en Baldur kom inn á sem varamaður á 67 mínútu leiksins.  Ísland leikur þrjá leiki á mótinu, næst gegn Litháen n.k. fimmtudag og lokaleikinn gegn Búlgaríu laugardaginn 7.apríl.  Við óskum Baldri til hamingju með áfangann og vonumst til að sjá hann sem oftast í landsliðsbúningi Íslands í framtíðinni.

Lifi…..Þróttur!!