2. flokkur karla

Álfhildur og Gústav best í 2. flokki — Jelena og Oliver efnilegust

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir (2000) var valin besti leikmaður 2. flokks kvenna í knattspyrnu á dögunum, en Jelena Tinna Kujundzic (2003) sú efnilegasta. Hvað snertir 2. flokk karla þótti Gústav Kári Óskarsson (1999) bestur, en Oliver Heiðarsson (2001) efnilegastur.

Á meðfylgjandi hópmynd má jafnframt sjá nokkra fulltrúa úr 2. flokki karla, sem nú kveðja yngri flokkana og ganga upp í meistaraflokk. Frá vinstri til hægri eru Aron Dagur Heiðarsson, Oliver Darrason, Gústav Kári, Þorgeir Bragi Leifsson, Valgeir Einarsson og Bragi Friðriksson. Margir þessara piltar af 99-árgerðinni eru nú þegar komnir með allnokkra leiki í meistaraflokki. Framtíðin er björt.

(Beðist er velvirðingar á slökum myndgæðum strákamegin.)

Baldur Hannes valinn í U17 landsliðið

Baldur Hannes Stefánsson hefur verið valinn í U17 landsliðið sem tekur þátt í undankeppni EM sem fram fer í Bosníu dagana 7 – 17 október n.k.

Baldur Hannes er í hópi 18 leikmanna sem þjálfari liðsins, Davíð Snorri Jónasson, valdi í verkefnið en í riðli Íslands leika auk heimamanna Gíbraltar og Úkraína.  Fyrsti leikur Íslands í mótinu er gegn Úkraínu miðvikudaginn 10.október.  Við óskum Baldri til hamingju með sætið í landsliðinu og liðinu góðs gengis í komandi leikjum.   Lifi….!

Baldur Stefánsson í úrslit á Norðurlandamótinu

U16 ára landslið karla tryggði sér í gær sæti í úrslitaleik Norðurlandamótsins í knattspyrnu með 2-1 sigri gegn Noregi.  Okkar maður Baldur Stefánsson var í byrjunarliði Íslands í gær og lék allan leikinn í góðum sigri sem tryggði úrslitaleik gegn Finnlandi en sá leikur fer fram á morgun, laugardag.  Frábær árangur og góðar fréttir fyrir Þróttara að Baldur leiki stórt hlutverk í liðinu.  Má geta þess til gaman að bróðir Baldurs, Stefán Þórður, var í leikmannahópi meistaraflokks Þróttar í fyrsta skipti í gærkvöldi i sterkum útisigri gegn HK þannig að þetta var ánægjulegur dagur bræðranna sem og allra okkar Þróttara.    Lifi……!!

HM fótboltasumarið er hafið!

Skráning stendur nú yfir á sumaræfingar knattspyrnudeildar Þróttar. Við bjóðum uppá reglulegar æfingar fyrir stráka og stelpur á öllum aldri undir handleiðslu topp þjálfara auk þátttöku í fjölda skemmtilegra móta víða um land. Það verður sannkallað HM fjör hjá Þrótti í allt sumar og nú er rétti tíminn til að skrá sig til leiks!

Skráning iðkenda og upplýsingar um æfingagjöld má nálgast hér: https://www.trottur.is/aefingagjold/ 

Upplýsingar um æfingatíma og skiptingu í flokka má nálgast hér: https://www.trottur.is/um-thrott/aefingatoflur/

Allir nýjir iðkendur eru velkomnir á 1-2 prufuæfingar án endurgjalds og í sumar verða knattspyrnuæfingar ókeypis fyrir stúlkur fæddar 2012-2015 (8 flokkur kvk).

Allar nánari upplýsingar veitir íþróttastjóri Þróttar, Þórir Hákonarson, thorir@trottur.is

Allir með í HM fjörið hjá Þrótti!

Þórhallur Siggeirsson ráðinn til Þróttar

Þórhallur Siggeirsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Gunnlaugs Jónssonar í meistaraflokki karla í knattspyrnu en hann verður jafnframt aðalþjálfari 2.flokks karla hjá félaginu.  Þórhallur er með UEFA-A þjálfaragráðu auk þess að vera með M.Sc gráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík.  Hann hefur mikla reynslu af þjálfun, hefur þjálfað hjá HK, Val og nú síðast hjá Stjörnunni þar sem hann var yfirþjálfari yngri flokka frá 2014-2017.

Við bjóðum Þórhall velkominn í Þrótt og væntum góðs samstarfs við áframhaldandi uppbyggingu félagsins.  Lifi……!!!