2. flokkur karla

Andrea Rut og Baldur Hannes í landsliðsverkefnum

U17 ára landsliðin í knattspyrnu eru í verðugum verkefnum á næstunni en karlaliðið leikur í milliriðli 17.-27. mars í Þýskalandi og kvennaliðið leikur sömuleiðis í milliriðli á Ítalíu 19. – 28. mars.

Þróttur á fulltrúa í báðum þessum liðum en Baldur Hannes Stefánsson og Andrea Rut Bjarnadóttir hafa verið valin til þátttöku í þessum verkefnum af landsliðsþjálfurunum Davíð Snorra Jónassyni og Jörundi Áka Sveinssyni.  Bæði eiga þau þegar landsleiki að baki þrátt yfir ungan aldur en Baldur Hannes hefur komið við sögu í 12 leikjum yngri landsliða og Andrea Rut hefur tekið þátt í 2 landsleikjum.  Við óskum þessum frábæru Þrótturum til hamingju með valið og vitum að þau verða Þrótti sem og landi og þjóð til sóma.  Lifi……

Sveinn Óli æfði hjá Burton

Sveinn Óli Guðnason, aðalmarkmaður 2.flokks hjá Þrótti og einn af varamarkvörðum meistaraflokks, fór nýverið til æfinga hjá Burton Albion FC Academy í Englandi en markvarðaþjálfari Þróttar, Jamie Brassington, setti sig í samband við félagið sem bauð Sveini að koma til æfinga.

Burton rekur öflugt afreksstarf fyrir unga leikmenn og æfði Sveinn með liðinu í nokkra daga við frábærar aðstæður á æfingasvæði ensku landsliðana á St. George Park í Burton en að sögn Jamie stóð Sveinn sig vel á æfingunum.

Ljóst er að æfingaferð sem þessi skilar miklu i reynslubanka leikmannsins auk þess að opna aukna möguleika á enn frekara samstarfi við þjálfun yngri leikmanna félagsins.