Karlar

Karl Brynjar og Víðir Þorvarðar leystir undan samningum

Karl Brynjar Björnsson og Víðir Þorvarðarson hafa fengið samningum sínum við knattspyrnudeild Þróttar rift en samningar þeirra áttu að gilda út tímabilið 2018.

Karl Brynjar var að leika á sínu sjöunda keppnistímabili fyrir Þrótt en hann er uppalinn hjá FH og kom til félagsins árið 2011 frá ÍR en á þessum tíma hefur hann leikið 123 leiki í deild og bikar fyrir félagið og skorað í þeim 10 mörk.  Karl Brynjar tók við fyrirliðabandinu í meistaraflokki þegar Hallur Hallsson lagði skóna á hilluna eftir keppnistímabilið 2016 og hefur lengst af verið fyrirliði liðsins frá þeim tíma og þ.a.l. gegnt mikilvægu hlutverki í liðinu á undanförnum árum. 

Víðir kom til Þróttar frá Fylki fyrir keppnistímabilið 2017 og hefur leikið 30 leiki í deild og bikar frá því hann kom og skorað í þeim 3 mörk. Víðir er uppalinn í ÍBV og á m.a. að baki einn landsleik með U21 liðinu og 112 leiki í efstu deild.

Þróttur þakkar Víði og Karli fyrir frábært framlag þeirra til félagsins og óskar þeim góðs gengis í komandi verkefnum.

Sindri Geirsson gerir tveggja ára samning

Þróttur hefur endurnýjað tveggja ára samning við markvörðinn Sindra Geirsson og gildir hann til ársins 2020. Sindri er uppalinn Þróttari á 24. aldursári og spilaði sína fyrstu leiki í meistaraflokki fyrir sex árum.

„Sindri hefur spilað mikið á undirbúningstímabilum síðustu ára og verið mikilvægur þáttur af baklandinu í meistaraflokki karla, enda áríðandi fyrir öll lið að búa að varamarkverði í toppklassa. Sindri er félagslega sterkur heimamaður og nátengdur samfélaginu hérna í Laugardal, hjartanu í Reykjavík. Framlengingin er því sérstaklega ánægjuleg fyrir stuðningsmenn félagsins,“ segir Haraldur Agnar Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar.