Konur

Meiðsla- og ástandsskimun yngri flokka 2017/2018 – Knattspyrnudeild Þróttar

Knattspyrnudeild Þróttar í samráði við Valgeir Einarsson sjúkraþjálfara mun standa fyrir meiðsla – og ástandsskimun leikmanna yngri flokkar Þróttar (2, 3 og 4 flokkur) í Þróttarheimilinu dagana 27.-29. desember n.k.Skimun yngri flokka fór í fyrsta sinn fram fyrir ári síðan í desember 2016. Þátttaka í fyrra var góð og því hefur verið ákveðið að bjóða upp á sams konar skimun á ný.

Lesa meira

Andrea Rut Bjarnadóttir skrifar undir samning við Þrótt

Þróttur og Andrea Rut Bjarnadóttir hafa skrifað undir tveggja ára samning sem þýðir að leikmaðurinn er samingsbundinn Þrótti út keppnistímabilið 2019.  Andrea Rut sem nýverið var valin í úrtakshóp U16 landslið stúlkna hefur þegar komið við sögu í leikjum meistaraflokks þrátt fyrir ungan aldur en hún er fædd árið 2003 og hefur skorað 1 mark í 9 leikjum í deild og bikar á árinu 2017.

Með samningnum vill félagið sýna að það hefur mikla trú á að þarna sé á ferð framtíðarleikmaður Þróttar og vonandi landsliðsins.  Þróttur skuldbindur sig m.a. með samningnum til þess að bjóða Andrea  upp á aðstöðu og umgjörð til þess að hún  geti bætt sig enn frekar og fái þá þjálfun sem til þarf.

Það er mikið gleðiefni fyrir okkur Þróttara þegar ungir leikmenn eru reiðubúnir til þess að sýna félaginu traust með þessum hætti og verður lögð áhersla á að Þróttur standi undir því trausti.  Lifi Þróttur!

Andrea Rut og Jelena Tinna á úrtaksæfingar U16

Jörundur Áki landsliðsþjálfari U16 kvenna valdi Þróttarana Andreu Rut Bjarnadóttur og Jelenu Tinnu Kujundzic á úrtaksæfingar landsliðsins sem fram fara 16. og 17. desember n.k.  Stelpurnar eru í 28 stúlkna hópi sem valdar voru til æfinga að þessu sinni en æfingarnar fara fram í Akraneshöllinni og í Egilshöll.

Jelena hefur áður verið valin í þennan hóp en Andrea Rut er hér valin í fyrsta skipti.  Við óskum þeim til hamingju með valið og vitum að þær verða til sóma.  Lifi Þróttur!

Guðfinna Kristín Björnsdóttir skrifar undir samning við Þrótt

Guðfinna Kristín Björnsdóttir hefur gengið frá undirritun samnings við knattspyrnudeild til næstu tveggja ára eða til loka keppnistímabilsins 2019.  Guðfinna Kristín, sem er miðjumaður,  var samningsbundin KR en hefur leikið síðustu tvö tímabil með Þrótti að láni, leikið með okkur 26 leiki í deild og 2 í bikar og skorað í þeim tvö mörk.  Hún er uppalin í Gróttu en hefur verið samningsbundin KR frá árinu 2015.

Það er mikið fagnaðarefni að félagið njóti krafta hennar næstu tímabil og við Þróttarar bjóðum Guðfinnu velkomna í félagið.  Lifi Þróttur!

Gabríela framlengir samning við Þrótt

Gabríela Jónsdóttir hefur gengið frá undirritun á samningi við knattspyrnudeild til næstu tveggja ára eða til loka keppnistímabilsins 2019.  Gabríela lék alla leiki meistaraflokks Þróttar í 1.deild á nýliðnu keppnistímabili en hún lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki félagsins í ágúst 2009, þá aðeins 16 ára gömul.  Hún hefur um nokkurt skeið verið ein af máttarstólpum meistaraflokks en Gabríela hefur alla tíð leikið með Þrótti og fór upp í gegnum yngri flokka félagsins.   Samningurinn er mikilvægur þáttur í því að ná settum markmiðum á næstu árum, m.a. að liðið leiki í Pepsi-deild keppnistímabilið 2019 og er það mikið fagnaðarefni að félagið njóti krafta hennar næstu tímabil.  Lifi Þróttur!