Konur

Elísabet Freyja semur við Þrótt

Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir og Þróttur hafa gengið frá leikmannasamningi sem gildir út næsta keppnistímabil eða út árið 2019.

Elísabet er 17 ára gömul og kemur til Þróttar frá HK en hún lék 7 leiki með HK/Víkingi í Pepsi-deild og bikar á síðasta tímabili, hefur leikið 3 leiki með U17 ára landsliðinu og var valin í úrtakshóp U19 landsliðsins núna síðast í byrjun nóvember.

Við bjóðum Elísabetu velkomna í hjartað í Reykjavík og bindum vonir við farsælt samstarf.

Friðrika Arnardóttir og Þróttur endurnýja samning

Markvörðurinn Friðrika Arnardóttir og knattspyrnudeild Þróttar hafa endurnýjað samning sem gildir nú út keppnistímabilið 2020.  Friðrika sem fædd er árið 2000 er uppalinn Þróttari en lék með meistaraflokki Gróttu á síðasta keppnistímabili.  Hún var nýverið valin í 24 leikmanna æfingahóp U19 landsliðsins og sækir æfingar liðsins 9.-11.nóvember n.k.

Nýr samningur er mikið fagnaðarefni og ljóst að þarna er á ferðinni einn af framtíðarleikmönnum Þróttar.  Lifi…….!

Sóley María og Friðrika í æfingahóp U19

Þórður Þórðarsson landsliðsþjálfari U19 kvenna hefur valið 24 leikmenn til æfinga 9. – 11. nóvember og í þeim hópi eru tveir Þróttarar, Sóley María Steinarsdóttir og Friðrika Arnardóttir.

Sóley María hefur undanfarið verið í leikmannahópi landsliðsins og lék síðast með liðinu í undankeppni EM sem fram fór í Wales í byrjun október en Friðrika hefur hins vegar ekki verið í hópnum fyrr en nú og vonumst við sjálfsögðu eftir að hún nái að festa sig í sessi í þessum efnilega hópi leikmanna.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis í komandi verkefnum.  Lifi…….!

 

Fjórir Þróttarar á úrtaksæfingum í fótbolta

Fjórir Þróttarar hafa verið valdir til þátttöku í úrtaksæfingum U16 landsliða í knattspyrnu en æfingar fara fram annars vegar 26-28.október (drengir) og hins vegar 2.-4.nóvember (stúlkur).

Hjá drengjunum voru valdir þeir Adrían Baaregaard Valencia og Egill Helgason en hjá stelpunum voru Andrea Rut Bjarnadóttir og Jelena Tinna Kujundszic valdar í hópinn.

Jelena á þegar að baki 2 landsleiki með U17 landsliðinu en hin vonandi stíga sín fyrstu skref með landsliðunum í framhaldi af þeim æfingum sem framundan eru á næstu misserum.

Við óskum þessum efnilegu Þrótturum til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis.  Lifi…….!

 

Álfhildur og Gústav best í 2. flokki — Jelena og Oliver efnilegust

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir (2000) var valin besti leikmaður 2. flokks kvenna í knattspyrnu á dögunum, en Jelena Tinna Kujundzic (2003) sú efnilegasta. Hvað snertir 2. flokk karla þótti Gústav Kári Óskarsson (1999) bestur, en Oliver Heiðarsson (2001) efnilegastur.

Á meðfylgjandi hópmynd má jafnframt sjá nokkra fulltrúa úr 2. flokki karla, sem nú kveðja yngri flokkana og ganga upp í meistaraflokk. Frá vinstri til hægri eru Aron Dagur Heiðarsson, Oliver Darrason, Gústav Kári, Þorgeir Bragi Leifsson, Valgeir Einarsson og Bragi Friðriksson. Margir þessara piltar af 99-árgerðinni eru nú þegar komnir með allnokkra leiki í meistaraflokki. Framtíðin er björt.

(Beðist er velvirðingar á slökum myndgæðum strákamegin.)