Meistaraflokkur karla

Víðir Þorvarðarson gerir tveggja ára samning við Þrótt

Eyjamaðurinn Víðir Þorvarðarson hefur vistaskipti nú á vordögum þegar að hann færir sig frá Fylki til Þróttar í Reykjavík, en hann skrifaði undir tveggja ára samning í Laugardalnum á dögunum.

Víðir er alinn upp í ÍBV og spilaði þar í nokkur ár, en brá sér jafnframt í Stjörnuna í millitíðinni. Hann er jafnvígur úti í kanti sem á miðjunni og spilaði sextán leiki með Fylki síðastliðið sumar þar sem hann skoraði fjögur mörk. Þrátt fyrir ungan aldur á hinn 24 ára Víðir að baki 8 ára feril í meistaraflokki og er þar skrifaður fyrir 133 leikjum og 26 mörkum.

„Það er alltaf gaman að fá til okkar bráðunga reynslubolta. Víðir kemur til Þróttar klyfjaður reynslu frá spilamennsku sinni með ÍBV, Stjörnunni og Fylki. Hann er kvikur, nettur, skapandi og skruggufljótur. Þetta er skeinuhættur leikmaður að okkar skapi og hinir frábæru Köttarar eiga eftir að elska kappann. Hann smellpassar við hjartað í Reykjavík,“ segir Ótthar Sólberg Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar.

„Víðir mætir til leiks með mikil gæði í farteskinu og við vorum sérstaklega ánægðir með hversu mikla löngun hann sýndi til að spila með Þrótti. Það verður spennandi að sjá Víði sprikla í Laugardalnum. Hann er litríkur leikmaður og skemmtilegur á velli. Stórhættulegur í návígjum og með tækni og hæfileika, sem getur splundrað vörnum andstæðinga. Eins og flestar aðrar viðbætur Þróttar á undirbúningstímabilinu kemur nú til okkar þrautreyndur leikmaður úr efstu deild og það er mikilvægt atriði. Víðir er lítilsháttar á eftir öðrum í hópnum hvað snertir leikform, því hann hefur lítið spilað að undanförnu, en hann er svo vinnusamur og metnaðarfullur að hann verður vafalaust kominn í toppform í maí,“ segir Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar.

Víðir er eitt af síðustu púslunum í leikmannahóp Þróttar fyrir sumarið í Inkasso-deildinni, en til liðsins á undirbúningstímabilinu eru komnir Birkir Þór Guðmundsson frá Aftureldingu, Daði Bergsson frá Val, Grétar Sigfinnur Sigurðarson frá Stjörnunni, Sveinbjörn Jónasson frá KH og Viktor Jónsson frá Víkingi Reykjavík.

Sveinbjörn skrifar undir samning

Austfirðingurinn Sveinbjörn Jónasson hefur skrifað undir árs samning við Þrótt og var gengið frá undirritun fyrr í dag.

Sveinbjörn er Þrótturum vel kunnur, lék síðast með liðinu í 1.deildinni árið 2013 þegar hann skoraði 8 mörk í 21 leik en áður hafði hann skorað 19 mörk í 22 leikjum í deildinni tímabilið 2011 og 8 mörk í bikarnum á sama tímabili í 4 leikjum.  Þróttarar fagna endurkomu Sveinbjörns í félagið og væntir mikils af honum í baráttunni í Inkasso deildinni í sumar.  Velkominn Sveinbjörn, lifi Þróttur!

Mfl.karla óskar eftir aðalliðsstjórum fyrir sumarið.

Leitað er eftir áhugasömum einstaklingum, einum eða fleiri, sem eru tilbúnir að vinna með liðinu og taka þátt í frábæru sumri. Aldur er afstæður í þessum málum en áhugi,dugnaður og köttað hugarfar skilyrði. Frábært tækifæri til þess að taka þátt í starfinu og vinna með og kynnast leikmönnum, þjálfurum og þeim sem starfa í kringum Þrótt.

Áhugasamir sendi tölvupóst á otthar@trottur.is

 

© Copyright 2016 Knattspyrnufélagið Þróttur

Knúið af Everything WordPress sniðmátinu