Meistaraflokkur kvenna

Elísabet Freyja semur við Þrótt

Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir og Þróttur hafa gengið frá leikmannasamningi sem gildir út næsta keppnistímabil eða út árið 2019.

Elísabet er 17 ára gömul og kemur til Þróttar frá HK en hún lék 7 leiki með HK/Víkingi í Pepsi-deild og bikar á síðasta tímabili, hefur leikið 3 leiki með U17 ára landsliðinu og var valin í úrtakshóp U19 landsliðsins núna síðast í byrjun nóvember.

Við bjóðum Elísabetu velkomna í hjartað í Reykjavík og bindum vonir við farsælt samstarf.

Friðrika Arnardóttir og Þróttur endurnýja samning

Markvörðurinn Friðrika Arnardóttir og knattspyrnudeild Þróttar hafa endurnýjað samning sem gildir nú út keppnistímabilið 2020.  Friðrika sem fædd er árið 2000 er uppalinn Þróttari en lék með meistaraflokki Gróttu á síðasta keppnistímabili.  Hún var nýverið valin í 24 leikmanna æfingahóp U19 landsliðsins og sækir æfingar liðsins 9.-11.nóvember n.k.

Nýr samningur er mikið fagnaðarefni og ljóst að þarna er á ferðinni einn af framtíðarleikmönnum Þróttar.  Lifi…….!

Sóley María og Friðrika í æfingahóp U19

Þórður Þórðarsson landsliðsþjálfari U19 kvenna hefur valið 24 leikmenn til æfinga 9. – 11. nóvember og í þeim hópi eru tveir Þróttarar, Sóley María Steinarsdóttir og Friðrika Arnardóttir.

Sóley María hefur undanfarið verið í leikmannahópi landsliðsins og lék síðast með liðinu í undankeppni EM sem fram fór í Wales í byrjun október en Friðrika hefur hins vegar ekki verið í hópnum fyrr en nú og vonumst við sjálfsögðu eftir að hún nái að festa sig í sessi í þessum efnilega hópi leikmanna.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis í komandi verkefnum.  Lifi…….!

 

Sóley María í byrjunarliði Íslands í góðum sigri

Sóley María Steinarsdóttir var í byrjunarliði U19 landsliðsins og lék allan leikinn í góðum sigri Íslands á Wales, 2-1,  í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer  í Armeníu.  Liðið er í riðli með Wales, Armeníu og Belgíu og er næsti leikur gegn heimastúlkum í Armeníu á föstudaginn.  Þetta var 19 landsleikur Sóleyjar með U17 og U19 og ef að lýkur lætur mun hún leika tuttugasta landsleik sinn n.k.föstudag þegar stelpurnar taka á móti heimastúlkum í Armeníu.  Við óskum stelpunum góðs gengis í komandi leikjum.  Lifi…..!

Sóley María valin í U19 landsliðið

Sóley María Steinarsdóttir hefur verið valin í leikmannahóp U19 ára landsliðsins sem leikur í undankeppni EM í Armeníu 29. september – 9. október n.k.

Sóley María á þegar að baki 7 landsleiki með U19 ára landsliðinu og 11 landsleiki með U17 ára liðinu auk þess að vera einn af lykilmönnum meistaraflokksins hjá Þrótti undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur en hún er fædd árið 2000.   Við óskum Sóleyju Maríu góðs gengis í komandi verkefnum.

Lifi……!!