Silfur á Íslandsmóti 50+

Þróttarar unnu til silfurverðlauna á Íslandsmóti 50 ára og eldri um helgina. Þessi árangur er til marks um mikið uppbyggingarstarf í Old boys starfi félagsins því liðið hefur hækkað sig um eitt sæti á mótinu á hverju ári undanfarin ár. Það er því ljóst hvert markmiðið er fyrir næsta ár.

Fyrir lokatúrneringuna sem fór fram í Reykjaneshöll um helgina átti Þróttur veika von um að vinna til gullverðlauna en varð að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum en sú von varð ekki að veruleika. Lokaleikurinn var hreinn úrslitaleikur um annað sætið gegn Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára, Keflavík/Víði. Þróttur, sem varð að vinna leikinn, lenti undir í fyrri hálfleik en með  baráttu og útsjónarsemi hafðist 2-1 sigur. Þess má geta að Knattspyrnufélag Reykjavíkur vann mótið.

Efri röð frá vinstri: Magnús Dan Bárðarson, Ólafur Stefán Magnússon, Sólmundur Jónsson, Júlíus Júlíusson og Flosi Helgason. Neðri röð: Ágúst Tómasson, Benjamín Sigursteinsson, Karl S. Gunnarsson, Geir Leó Guðmundsson og Stefán B. Mikaelsson.

HM fótboltasumarið er hafið!

Skráning stendur nú yfir á sumaræfingar knattspyrnudeildar Þróttar. Við bjóðum uppá reglulegar æfingar fyrir stráka og stelpur á öllum aldri undir handleiðslu topp þjálfara auk þátttöku í fjölda skemmtilegra móta víða um land. Það verður sannkallað HM fjör hjá Þrótti í allt sumar og nú er rétti tíminn til að skrá sig til leiks!

Skráning iðkenda og upplýsingar um æfingagjöld má nálgast hér: https://www.trottur.is/aefingagjold/ 

Upplýsingar um æfingatíma og skiptingu í flokka má nálgast hér: https://www.trottur.is/um-thrott/aefingatoflur/

Allir nýjir iðkendur eru velkomnir á 1-2 prufuæfingar án endurgjalds og í sumar verða knattspyrnuæfingar ókeypis fyrir stúlkur fæddar 2012-2015 (8 flokkur kvk).

Allar nánari upplýsingar veitir íþróttastjóri Þróttar, Þórir Hákonarson, thorir@trottur.is

Allir með í HM fjörið hjá Þrótti!

Markmannsþjálfari allra aldursflokka fær stuðning frá Oldboys

Knattspyrnudeild Þróttar undirritaði nývera samning við markmannsþjálfarann Jamie Brassington sem tekur við markmannsþjálfun allra aldursflokka hjá félaginu. Jamie er fæddur árið 1991, og hefur starfað sem yfirþjálfari markmanna í afreksmótun hjá Colchester og Burton Albion en hann er með UEFA B próf í knattspyrnuþjálfun og hefur lokið markmannsþjálfaragráðum hjá enska knattspyrnusambandinu auk þess að vera styrktarþjálfari.

Oldboys Þróttar færði Jamie nýverið myndbandstökuvél og þrífót sem hann mun nota til þess að taka upp æfingar og leiki markmanna Þróttar. Jamie mun nota vélina til þess að framkvæma markvissa greiningu á  hreyfingum og staðsetningum markmanna félagsins og fylgja eftir með einstaklingamiðaðri þjálfun.

Félagið þakkar leikmönnum Oldboys fyrir stuðninginn við þjálfum yngri flokka félagsins.