Tennis

Herrakvöld Þróttar 2017: Laugardagur 4. mars

Hið árlega og ávallt stórkostlega Herrakvöld Þróttar verður haldið með stæl og elegans laugardaginn 4. mars kl. 18-02 í félagsheimili Þróttar. Herrakvöldið er einstakt tækifæri til að lyfta sér upp með vinum, vandamönnum, styrkja tengslin og hitta kallana í hverfinu.

Sala miða er hjá Þrótti. Sendið tölvupóst til otthar@trottur.is til að panta miða, taka frá borð og greiða. Miðaverð er kr. 7.000. Fjöldi miða er takmarkaður.

Innifalið í miðaverði er sælkeraveisla á heimsmælikvarða. Meðal atriða verða sjúklega fyndið uppistand, eldhresst tónlistaratriði, alþingisávarp, ræðumaður kvöldsins, happdrætti og treyjuuppboð.

 • DAGSKRÁ
  18:00     Happy Hour
  19:15     Tiltal veislustjóra: Kristján Kristjánsson
  19:30     Matur: Steikarhlaðborð með nauta-ribeye, lambi & bernaise
  20:00     Alþingisávarp kvöldsins: Gunnar Hrafn Jónsson, Pírati
  20:30     Formannsávarp heiðursgests: Guðni Bergsson, lögmaður
  20:45     Tónlistaratriði: Eyþór Ingi
  22:00     Uppistand: Andri Ívars
  22:30     Happdrætti
  23:00     Treyjuuppboð
  00:00     Frjáls tími
  02:00     Slútt – Húsið lokar

Októberfest í Laugardal 7. og 8. október

Hinn 7. og 8. október verður haldin Októberfest-hátíð í risatjaldi í Laugardal í þriðja skipti. Tjaldið opnar síðdegis báða dagana og lokar á miðnætti. Þessu til viðbótar verður boðið upp á upphitun fyrir tvo leiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á fimmtudag kl. 18:45 og sunnudag kl. 18:45. Sú upphitun hefst báða dagana kl. 16:00.

Á föstudeginum og laugardeginum verður aftur á móti boðið upp á fjölbreytta dagskrá, ásamt gómsætum veitingum á föstu og fljótandi formi með sterkum samstarfsaðila Þróttar, sem í þessu tilfelli er Vífilfell. Aðgangur er ókeypis og aldurstakmark eftir myrkur er 20 ár. Októberfest í Laugardal er menningarhátíð og til þess gerð að styrkja samfélagið í dalnum og taka vel á móti góðum gestum.

Umrætt tjald er fjölnota og hefur nú þegar verið reist við félagssvæði Þróttar, nánar tiltekið milli gervigrass og svokallaðs Þríhyrnings vestan við Skautahöllina. Tjaldið verður upphitað og vel búið húsgögnum. Dagskrá hverfishátíðarinnar er eftirfarandi.

 • FÖSTUDAGUR – 7. OKTÓBER
  16:00 – Tjaldið opnar
  17:00 – Grillið rúllar af stað
  20:00 – Barsvar/pubquiz með 80s-þema (dægurmenning & fótbolti): Berti Andrésson
  21:00 – Uppistand: Þórdís Nadia Semichat
  22:00 – Trúbador: Hreimur Örn Heimisson
  23:00 – Trúbador: Halldór Gylfason
  00:00 – Tjaldið lokar
 • LAUGARDAGUR – 8. OKTÓBER
  16:00 – Tjaldið opnar
  17:00 – Grillið rúllar af stað
  20:00 – Barsvar/pubquiz með 80s-þema (dægurmenning & fótbolti): Hjálmar Örn Jóhannsson
  21:00 – Uppistand: Snjólaug Lúðvíksdóttir
  21:20 – Trúbador: Ingólfur Þórarinsson
  23:00 – Trúbador: Eyjólfur Kristjánsson
  00:00 – Tjaldið lokar

Þess má geta að upphitun verður í tjaldinu fyrir leiki strákanna í A-landsliði Íslands gegn Finnlandi fimmtudaginn 6. október og Tyrklandi sunnudaginn 9. október. Báðir leikirnir hefjast kl. 18:45 og verður upphitun í tjaldinu fyrir þá báða dagana frá kl. 16:00 með grilli og guðaveigum við allra hæfi. Boðið verður upp á leikgreiningu og önnur skemmtilegheit fyrir alla áhugasama áhorfendur, sem eru á leiðinni á leikinn og vilja nýta tækifærið á undan og koma saman.

Októberfest-hátíðir eru nú haldnar um víða veröld og hafa á liðlega 200 árum þróast í menningarhátíðir þar sem tónlist og matur eru í hávegum höfð. Októberfest í Laugardal er þar engin undantekning og hefur verið fjölsóttur viðburður með vinalegri hverfisstemmningu. Októberfest í München er vitaskuld elst þessara hátíða, en hún var haldin í fyrsta skipti 17. október 1810. Hátíðin er nú orðin að einni fjölmennustu samkomu veraldar, en ár hvert sækja yfir sjö milljónir gestir hátíðina heim.

 

Þróttarar taka þátt í Gleðigöngunni 2016

Þrótturum hefur borist ósk um að fjölmenna í Gleðigönguna 2016 með öðrum aðildarfélögum KSÍ og vinum okkar í Íþróttafélaginu Styrmi. Við ætlum að verða við þessari beiðni og vera fjölmennasta og mest áberandi félagið í göngunni. Enda erum við hjartað í Reykjavík og þykjum bæði gleðiríkt og fordómalaust félag.

Gangan hefst kl. 14:00 laugardaginn 6. ágúst. Mæting fyrir þátttakendur er kl. 13:00 við Tannsmíðaskólann/Tanngarð við Hringbraut. Þar gerum við okkur klár og fáum leiðbeiningar.

Allir Þróttarar sem taka þátt eiga að klæðast búningum félagsins, ekki verra ef fánar og fleira verða meðferðis. Við hvetjum foreldra til að henda sér í langröndótt dress og fjölmenna með prúðbúnum börnum sínum. Köttarar eru sérstaklega hvattir til að mæta í jökkunum góðu!

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli hverju sinni.

 

 

Gleðigangan