Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Gunnar Eyland, þjálfari 4. flokks, sem vann fyrsta mótasigur fyrir Þrótt.

Gunnar Juul Eyland, 1933-1980, var einn af burðarásum Þróttar á fyrstu og kannski erfiðustu árunum, ungur maður frá Akureyri, sem vann sem kvikmyndasýningamaður í Trípolíbíói sem stóð skammt norður af Grímsstaðaholtsvellinum.  Milli sýninga þegar tími vannst til kom Gunnar iðulega, oftast klæddur jakkafötum og blankskóm, bretti upp buxnaskálmar og sparkaði með strákunum.  Gunnar gekk fljótt í Þrótt og átti eftir að reynast frábær liðsmaður.  Hann gerðist fyrsti þjálfari 4.flokks, sem vann fyrsta mótssigurinn fyrir félagið 1951. 

Hann sá einnig um þrjár vikulegar kvikmyndasýningar í Bragganum, aðallega fyrir börn en einnig eldri félaga.  Það voru samt ekki aðeins Þróttarar sem sóttu þessar sýningar því vitað er að gestir komu allstaðar að, m.a. úr Hafnarfirði.  Gunnar annaðist einnig um kvöldvökur 3.flokks.  Gunnar var frábær félagi og öllum harmdauði þegar hann lést ungur að árum 1980.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Jens Karlsson, fyrrum knattspyrnumaður í Þrótti.

Jens Karlsson, 1938-, er einn þeirra manna sem starfað hafa fyrir Þrótt allt frá fyrstu árum félagsins.  Hann var kominn yfir fermingu þegar hann birtist á sinni fyrstu fótboltaæfingu með 3.flokki.  Það þótti ekki góð latína að byrja svo seint þannig að Jens var ekki spáð frama.  Hann átti þó eftir að verða einn af betri knattspyrnumönnum félagsins.  Jens segir að Bjarni Bjarnason fv. formaður hafi „platað“ sig og Björn bróður sinn í Þrótt. 

Jens var fljótur að komast í meistaraflokk félagsins og lék þar á árunum 1955 til 1971.  Hann var lengi leikjahæstur Þróttara í knattspyrnunni með 213 leiki, þótt ekki væru margir leikir leiknir árlega á þessum tíma.  Þá var hann oft valinn til að leika með úrvalsliði Reykjavíkur, en bæjarkeppni sú var háð árlega.

Þrisvar var hann í Þróttarliði sem hífði félagið upp í efstu deild, það var 1958, 1963 og 1965.  Jens lét ekki knattspyrnuna eina nægja og lék einnig 97 leiki með handknattleiksliði félagsins.  Hann var í meira en áratug fulltrúi félagsins í KRR og starfaði mjög vel.  Síðast en ekki síst hefur Jens verið endurskoðandi reikninga félagsins í áratugi.  Hann hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og KRR.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Jason Ívarsson, blakmaður og fyrrum formaður Blaksambands Íslands.

Jason Ívarsson, 1953 , gekk til liðs við blakdeild Þróttar 1975, ári eftir stofnun deildarinnar. Hann lék um 350 leiki með sigursælu liði Þróttar, til ársins 1993. Liðið var einstaklega sigursælt, og varð Íslandsmeistari fyrst 1977; og svo samfellt frá 1981 til 1987; auk þess að verða margfalt bikarmeistari og deildarmeistari. Samhliða því að leika með liðinu sat Jason mörg ár í stjórn deildarinnar, og var formaður 1991-1993.

Auk starfa innan Þróttar hefur Jason lagt blakhreyfingunni ómældan tíma og vinnu. Hann sat óslitið í stjórn Blaksambandsins frá 1995 og fram í mars á þessu ári. Þar af sem formaður sambandsins í 14 ár; lengst allra í sögu sambandsins.

Þeir sem þekkja til Jassa, vita að hann er mikill sögumaður. Við báðum hann um að deila með okkur nokkrum eftirminnilegum sögum á löngum ferli sem leikmaður: „Eitt sinn var ákveðið að bestu blakliðin á þeim tíma, sem voru ÍS og Þróttur, léku einn deildarleik í Vestmannaeyjum. Leikurinn var liður í útbreiðslu íþróttarinnar. Þessi lið höfðu háð marga hildina og haft sigur á víxl. Ef illa færi þá höfðum við Þróttarar ákveðið varaáætlun sem átti að bjarga okkur frá tapi, ef í það stefndi. Áætlunin fólst í því að Leifur Harðarson átti að spila upp á mig mjög nálægt netinu þannig að ég átti að eiga í erfiðleikum með að ná boltanum, svo að ég myndi óhjákvæmilega lenda í netinu og hanga í því og slíta það niður. Við vissum nefnilega að það var bara til eitt net í Eyjunum og það tækist ekki að laga það í tæka tíð fyrir heimferð svo að það yrði að leika annan leik síðar. Það kom reyndar ekki til þess að þessi áætlun væri virkjuð.“

„Til þess að fá meiri fjölbreytni í æfingar þá fórum við Þróttarar stöku sinnum og kepptum við blaklið Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Fyrir einn æfingaleikinn höfðum við Leifur verið að æfa snöggt spil á miðjunni. Í þeim leik tókst mér að ná góðum skelli á miðjunni eftir gott uppspil frá Leifi. Andstæðingarnir virtust ekki vera vanir að sjá svona skell, í það minnsta stoppuðu þeir og komu allir undir netið, klöppuðu mér og sögðu: „What a spike.“ [Þvílíkur skellur]“.

Jason Ívarsson hefur bæði hlotið gullmerki Þróttar; sem og gullmerki ÍSÍ og blaksambands Íslands.