ÞRÓTTARI VIKUNNAR

Sölvi Óskarsson, 1942-, var á sjöunda aldursári er hann gekk til liðs við hið nýstofnaða félag á Grímsstaðaholti, Þrótt, þar sem hann eyddi flestum tómstundum sínum eftir það, fyrst sem leikmaður í knattspyrnu, en þar var hann í hinum sigursæla 2.flokki sem sigraði bæði á Íslands- og Reykjavíkurmótunum 1961, og síðar sem þjálfari margra yngri flokka félagsins og tvisvar tók hann að sér meistaraflokk og undir hans stjórn vann félagið sér sæti meðal þeirra bestu 1976. Hann þjálfaði „Eldri flokk“ félagsins um árabil og gerði þá að Íslandsmeisturum 1990 auk annarra mótasigra.Sölvi sat í fimm ár í aðalstjórn Þróttar lengst af sem gjaldkeri og sem slíkur jók hann getraunasölu félagsins til muna. Þá sat hann fyrir félagið í stjórn ÍBR um árabil. Árið 1970 var hann meðal stofnfélaga Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands KÞÍ og var kosinn fyrsti formaður félagsins og gegndi því starfi í nokkur ár. Hann starfaði um eins árs skeið í efstu deildinni í Færeyjum og gerði KÍ frá Klaksvík að meisturum 1972 auk þess að stjórna landsliði Færeyja sama ár, m.a. í fyrsta opinbera A-landsleik þeirra sem var gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Sölvi stundaði einnig frjálsar íþróttir og hefur tekið þátt í langhlaupum viða um lönd og þá oft skartað Þróttarbúningnum.Sölvi hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, ÍSÍ, KSÍ, ÍBR, KRR og KÞÍ fyrir störf sín og 2016 var hann gerður að heiðursfélaga Þróttar fyrir störf sín.
Á myndinni þiggur Sölvi heiður úr hendi Magnúsar Óskarssonar, formanns Þróttar árið 1979.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Tryggvi Geirsson, fyrrum formaður Þróttar.

Tryggvi Einar Geirsson, 1952-,  er einn af nokkrum formönnum félagsins sem hafa komið til starfa utan af landi og við verið svo heppin að þeir völdu Þrótt.  Tryggvi segist hafa átt val milli Þróttar og Ármanns og hann hafi aldrei séð eftir þeirri ákvörðun sinni að velja Þrótt. 

Hann er ættaður frá Steinum undir Eyjafjöllum, en flutti til Reykjavíkur 1972 eftir nám í Samvinnuskólanum á  Bifröst og hóf að æfa og keppa með meistaraflokki í knattspyrnu, en hætti þegar hann hóf nám í endurskoðun 1973.  Árið 1974 var 5.flokkur í reiðileysi og tók Tryggvi hann að sér og var með flokkinn í tvö ár.  Strax árið eftir gerði hann flokkinn að Íslandsmeisturum og á næstu árum unnust Reykjavíkurmeistaratitill í 4.flokki og nokkur innanhússmót.  Tryggvi flutti til Akureyrar 1977 og ætlaði að setjast þar að en örlagagyðjurnar voru Þrótti vilhallar og dvöl hans fyrir norðan varð aðeins eitt ár og kom hann því aftur til starfa hjá Þrótti af fullum krafti eða rúmlega það.  Hann tók við formennsku í knattspyrnudeildinni á miðju tímabili 1978 og stjórnaði henni til 1981, en kom svo aftur inn árið eftir sem gjaldkeri.                                                                                                                Tryggvi var síðan kosinn formaður Þróttar 1984, eftir að þeir Óli Kr. Sigurðsson og Sölvi Óskarsson höfðu hreinlega sest á hann til að taka við félaginu.  Hann samþykkti það með því skilyrði að þeir félagar ynnu með honum, sem þeir og gerðu.  Tryggvi stýrði félaginu í 16 ár, eða lengur en nokkur annar formaður félagsins, og hann stýrði því inn í 21. öldina. 

Fyrsta verkefni stjórnarinnar var að glíma við fjárhagsvandræði handknattleiksdeildar og fóru um tvö ár í það verkefni sem endaði því miður með því að handboltinn var aflagður í Þrótti þar sem þeir sem stjórnuðu gátu ekki komið með neinar lausnir sem dugðu til að reka deildina án halla.  Annað vandamál sem Tryggvi og félagar þurftu að glíma við var aðstöðuleysi félagsins og varð strax ljóst að þessi aðstaða dugði ekki til frambúðar.  Farið var í viðræður við borgina um flutning í Laugardalinn en málið strandaði á stjórn ÍTR.  Grasvöllur var síðan tekinn í notkun 1989 og og tennisvellir ári eftir, en 1992 náðist samkomulag við Reykjavíkurborg um byggingu gervigrasvallar en þeim samningi var síðan breytt í byggingu íþróttahúss 1994.  Þetta varð síðan til þess að umræður hófust á ný um flutning Þróttar í hjartað í borginni, Laugardalinn.  Framhaldið þekkja félagsmenn.                                    

Tryggvi  er giftur Dagnýju Ingólfsdóttur, frá Húsavík, sem komið hefur að starfi félagsins með öðrum Þróttarkonum.   Tryggvi hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, ÍSÍ, KSÍ, ÍBR og KRR.  Hann var gerður að fjórða heiðursfélaga Þróttar, árið 2008, fyrir störf sín.  

Knattspyrnufélagið Þróttur er 70 ára í dag 5. ágúst

Til hamingju með 70 ára afmælið.

Í dag er merkisdagur hjá félaginu okkar. Það var á þessum degi fyrir 70 árum sem nokkrir félagar hittust í gömlum herbragga  við Grímsstaðavör við Ægissíðuna og stofnuðu Knattspyrnufélagið Þrótt.  Þeir sem stóðu að stofnun félagsins voru m.a fyrsti formaður þess, Halldór Sigurðsson kaupmaður og Eyjólfur Jónsson sem þekktastur var fyrir mikil afrek í sundi. 

Knattspyrna hefur frá upphafi verið fyrirferðamest í félaginu en auk hennar áttum við bestu blaklið landsins um langt árabil og um tíma eitt besta handboltalið landsins sem m.a. fór alla leið í undanúrslit í Evrópubikarkeppninni, auk fleiri greina.

Við búum við það, eitt félaga í Reykjavík, að hafa flutt aðsetur tvisvar frá stofnun.  Fyrst úr vesturbænum í Sæviðarsundið árið 1969 og svo úr Sæviðarsundinu í Laugardalinn 1998 þar sem höfuðstöðvar félagsins eru í dag.  Aðstöðuleysi hefur í áratugi háð félaginu og því miður hefur ekki verið staðið við mörg gefin loforð um meiri og betri aðgang að Laugardalshöllinni sem á að þjóna innigreinum okkar.

Það er ljóst að félagið hefur setið eftir þegar skoðaður er aðbúnaður annarra hverfisfélaga í Reykjavík, öll hafa þau eigið íþróttahús og sum tvö eða þrjú og sama á við um gervigrasvelli. 

Við Þróttarar búum í hverfi sem hefur stækkað og mun stækka enn frekar á næstu árum í kjölfar þéttingu byggðar. Aðalstjórn félagsins setti sér skýra framtíðarsýn sem er til umfjöllunnar hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt henni mun félagið fá nýtt íþróttahús til eigin nota og a.m.k tvo nýja gervigrasvelli á Valbjarnarsvæðið.  Viðræður eru í gangi við Reykjavíkurborg og vonumst við eftir góðri niðurstöðu nú á haustmánuðum. 

Uppbyggingarstarf er hafið í handboltanum með það að markmiði að þegar félagið fær eigið íþróttahús til umráða verði til staðar öflugir yngri flokkar sem munu stækka og eflast með tilkomu hússins.   Kvennablakið er á góðum stað í uppbyggingarferli og mikið af uppöldum stelpum eru að gera vel, það verður ekki langt þangað til við förum aftur að sjá blakbikara á lofti í Þrótti. Karlablakið mun í nýju húsi eflast og mótast að nýju. 

Knattspyrnudeildin hefur stækkað gríðarlega síðustu ár og er nú ein sú stræsta í Reykjavík með hátt í þúsund iðkendur. Við höfum góða sumaraðstöðu fyrir fótboltann, en það eru bara 3-4 mánuðir. Hina mánuðina deila þessir þúsund iðkendur okkar eina gervigrasi.  Það verður að segjast að æfingarnar verða ekki mjög fjölbreyttar þegar hátt í 200 krakkar eru á sama tíma á æfingu inni á grasinu.  Yngri flokkarnir hafa samt sem áður víða verið að gera vel á mótum sumarsins og margir bikarar komið í hús. Meistaraflokkur kvenna er í harðri baráttu um sæti í Pepsi Max deildinni og hef ég fulla trú á því að þær fari upp, og standi uppi sem sigurvegarar í Inkassó deildinni í haust. Meistaraflokkur karla er í uppbyggingarferli með nýjum þjálfurum sem ætla sér stóra hluti með liðið í framtíðinni. 

Einnig er í félaginu vaxandi almenningsdeild sem er ætlað að höfða meira til þeirra sem ekki eru í hefðbundnum keppnisíþróttum. Þar gætu líka rúmast greinar eins og reiðhjóladeild, frisbí gólf, skokk jafnvel rafíþróttadeild o.fl. Allt er þetta þó háð betri aðstöðu í nýju húsi því í dag er ekki meira pláss inni í okkar félagshúsi. 

Svo eru það tvö stóru mótin okkar í knattspyrnu sem við höldum á hverju ári, Capelli Reycup og Vís-mótið. Frábær mót sem eru einsdæmi á landsvísu þar sem bæði kyn taka þátt á sama tíma.  Uppselt er á mótin á hverju ári sem má sérstaklega að þakka frábæru starfi stjórna mótanna og sjálfboðaliða sem að mótunum koma.  

En að afmælinu okkar. Í hverri viku hefur verið kynntur Þróttari vikunnar og þannig verður það út árið, mjög skemmtilegt hefur verið að lesa um öfluga félaga.  Að tilefni afmælisins létum við endurgera upphaflegt merki félagsins og hafa verið framleiddir fánar, nælur, bollar o.fl. sem gaman er að eiga. Í vor var öllum Þrótturum og íbúum Laugardalsins boðið í afmælisveislu í félagsheimilinu sem tengd var hverfishátíðinni „Laugarnes á ljúfum nótum“. Mikill fjöldi kom þá til okkar í heimsókn og þáði afmælistertu.  Núna í lok sumars verður svo opnuð glæsileg sögu og minjasýning í hátíðarsalnum okkar þar sem sýndir verða fjöldi muna, mynda, búninga o.fl. úr sögu félagsins. Sýningin verður kynnt betur þegar nær dregur.  Í vinnslu er heimildarmynd um félagið sem stendur til að frumsýna síðar í haust.  Þann 6. september verður mikil knattspyrnuhátíð, en í fyrsta skipti munu meistaraflokkar okkar leika heimaleiki á sama degi. Það verður heilmikið um að vera, boðið upp á mat i tjaldinu, tónlist, yngri flokkar verða heiðraðir o.fl. Stelpurnar okkar leika þennan dag við FH sem gæti verið úrslitaleikur um sæti í Pepsi Max deildinni á næsta ári eða jafnvel úrslitaleikur um sigur í Inkassó deildinni. Strákarnir eiga svo hörkuleik við nágrana okkar í Fram.  Daginn eftir, laugardaginn 7 september, er svo sjálf afmælishátíðin haldin í Laugardalshöll.  Þar verður glæsileg hátið þar sem félagsmönnum verða veittar viðurkenningar, Jón Jónsson tónlistarmaður stýrir hátíðinni, hátíðarræðan verður flutt af Gísla Einarssyni sjónvarpsmanni, sýnt sýnishorn úr nýju heimildarmyndinni um Þrótt og svo dansleikur með Selmu Björnsdóttur og hljómsveit hússins. 

Framtíðin félagsins er sannarlega björt og við sem erum í forystu þess erum sannfærð um að með bættri aðstöðu getum við veitt fleiri börnum í hverfinu tækifæri til að taka þátt í starfinu og í framtíðinni náð enn betri árangri. Við erum með hæft og reynt starfsfólk og góða blöndu af efnilegum og reyndum þjálfurum. Krakkar frá okkur eru í úrtökum landsliða auk þess sem all nokkur eru fastamenn í yngri landsliðum Íslands.

Hlakka til að sjá ykkur á þessum skemmtilegu viðburðum sem framundan eru.

Til hamingju með 70 ára afmælið kæru Þróttarar.

Lifi Þróttur

Finnbogi Hilmarsson, formaður.