Þróttari vikunnar

Guðmundur Gústafsson, 1935-, hóf iðkun handknttleiks og knattspyrnu strax á fyrstu árum félagsins og er kominn í meistaraflokk í báðum greinunum 1954.  Knattspyrnuferillinn varð mun styttri en þó náði hann að leika 19 leiki í meistaraflokki, þar af 10 í efstu deild og síðasta ár hans í fótboltanum 1958 var hann í sigurliði félagsins sem sigraði í b-deildinni og vann sér þátttökurétt með þeim bestu árið eftir.  Aðeins voru leiknir 4 – 5 leikir á ári á þessum tíma. 

Handknattleiksferill Guðmundar varð miklu lengri, hann var í liði meistaraflokks sem vann sigur í 2.deild 1954 og þar með rétt til að leika í 1.deild árið eftir.  Guðmundur varði mark félagsins af stakri prýði í um tvo áratugi í yfir 200 leikjum. Hann var oft valinn í úrvalslið og kórónaði það með því að vera valinn í landslið Íslands tímabilið 1967-68 og varð með því fyrsti Þróttarinn til að leika með karlalandsliðinu.  Guðmundur hefur verið sæmdur gullmerki félagsins. 

Systir Guðmundar, Katrín var landsliðskona í handknattleik og var valinn Þróttari vikunnar fyrir ekki svo löngu auk þess sem sonur hans Guðmundur Páll lék fjölda leikja með Þrótti í blaki.

Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Bill Shirreffs, knattspyrnumaður með meistaraflokki Þróttar og þjálfari.

William James (Bill) Shirreffs, 1921-2010, var fæddur í Aberdeen í Skotlandi og hóf kornungur að leika knattspyrnu með skólaliðum. Tók hann þátt í skólakeppni fyrir biblíuskóla en viðurkennir að það hafi ekki verið af trúarástæðum, heldur gat skólinn boðið upp á góð skilyrði til íþróttaiðkana. Þegar síðari heimsstyrjöldin skall á var hann kvaddur í herinn eins og aðrir ungir menn og var í hernum í 6 ár. Hann var lengst af staðsettur í Indlandi og Burma og þar fengu þeir oft heimsóknir frá liðum á Bretlandseyjum sem léku gegn þeim og voru oft frægir leikmenn í báðum liðum.  Hann kom fyrst til Íslands 1941 en staldraði stutt við en kom síðan aftur 1947 og ílentist, kvæntist tvisvar og átti fjögur börn.  Hann segir að ástæðan fyrir því að hann gerðist Þróttari hafi verið að tveir ýtnir stjórnarmenn, þeir Haraldur Snorrason og Bjarni Bjarnason hafi ekki linnt látum fyrr en hann hafði verið plataður í Þrótt.  Hann hóf strax að leika með meistaraflokki sem til að byrja með lék aðeins gegn liðum hinna ýmsu fyrirtækja, áður en leyfi fékkst til að taka þátt í opinberum mótum.  Hann lék 85 leiki í meistaraflokki sem er alveg magnað afrek því leikir flokksins voru ekki mjög margir á ári. 

Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt og tók upp nafnið Baldur Ólafsson en alltaf var hann kallaður Bill. Honum gekk vel í leikjum með Þrótti og var oft valinn í úrvalslið Reykjavíkur og oft var fyrirsögnin „Bill var bestur“. Eitt árið var hann valinn besti knattspyrnumaður Reykjavíkur. Hann segir að sér hafi gengið vel í leikjum gegn Alberti Guðmundssyni og oft náð að pirra hann en gekk bölvanlega að eiga við Ríkharð Jónsson.  Bill lék með meistaraflokki til 1963  þegar hann var á fertugasta og öðru aldursári og slakaði aldrei á.  Hann þjálfaði flokkinn 1960 og átti sinn þátt í góðu gengi 4.flokksins 1951, þegar fyrsti sigur félagsins náðist.

Þróttari vikunnar er Gunnar Árnason, leikmaður og stjórnarmaður hjá blakdeild Þróttar til fjölda ára.

Gunnar Árnason, 1952-, var einn af frumherjum Þróttar í blaki. Vinsældir blakíþróttarinnar á Íslandi fóru vaxandi á árunum um 1970; en það ár var fyrsta Íslandsmótið haldið. Mekka blaksins á þessum árum var á Laugarvatni, en þar steig Gunnar sín fyrstu spor á Íslandsmóti; fyrst sem nemandi í Menntaskólanum á Laugarvatni en síðar sem nemandi í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Íþróttakennaranemarnir, sem léku undir merkjum Ungmennafélags Biskupstungna, urðu Íslandsmeistarar vorið 1974. Um haustið hélt hluti hópsins til Reykjavíkur og hafði áhuga á að halda áfram blakiðkun. Tvö félög voru þá starfandi í Reykjavík, Íþróttafélag Stúdenta (ÍS) og Víkingur. Var ákveðið að reyna fyrir sér með að stofna þriðju deildina, og leitað til KR, Fram og ÍR, en án árangurs. Að lokum voru það Þróttarar sem buðu hópinn velkominn og blakdeild Þróttar var formlega stofnuð 2. júlí 1974.

Fyrsti formaður var Guðmundur Elías Pálsson, sem hafði áður verið formaður nemendafélagsins á Laugarvatni, og því jafnan kallaður Fommi. Hann lét af embætti formansn eftir fyrsta árið og var Gunnar formaður deildarinnar til 1983. Auk þess að gegna formannsembættinu lék hann 218 leiki með Þrótti í efstu deild til 1983, og 40 landsleiki á árunum 1974 til 1983. Afskiptum hans var þó ekki lokið, því hann var áfram viðloðandi starf deildinnar, lék með eldri flokk deildarinnar sem lék í 2. deild; en þeim ferli lauk árið 2007 þegar Gunnar var 55 ára. Auk þess að starfa innan blakdeildar þá hefur Gunnar komið víðar við hjá félaginu, m.a. verið Íslandsmeistari í knattspyrnu eldri flokks, árið 1990 og haft umsjón með golfmótum Þróttar nokkru sinnum; en eftir að formlegum blakferli lauk þá hefur hann einbeitt sér meira að golfinu, og m.a. leikið með landsliðum eldri kylfinga þrisvar.

Blakdeild Þróttar var mjög sigursæl á þessum fyrsta áratug. Fyrsti mótasigurinn kom strax um haustið 1974 þegar meistaraflokkur kvenna urðu haustmeistarar. Meistaraflokkur karla varð á árunum 1974-1983 Íslandsmeistarar fjórum sinnum: 1977, 1981, 1982 og 1983. Meistaraflokkur kvenna 1983 og Þróttur átti marga sigra í yngri flokkum. Raunar rifjar Gunnar það upp að síðasta ár sitt sem formaður sendi blakdeild sex flokka til keppni, og urðu fimm þeirra Íslandsmeistarar.

Aðspurður um hvað útskýri þessa miklu sigursæld blakdeildar Þróttar segir Gunnar: „Það var margt sem var þess valdandi að Blakdeild Þróttar var á toppnum í íslensku blaki árum saman. Ég vil helst nefna fórnfýsi og elju stjórnarmanna og sérstaklega samheldinn hóp leikmanna, bæði karla og kvenna sem fyrst og fremst gerðu kröfur til sjálfs sín. Við vorum með góða þjálfara og góð lið, því þótti eftirsóknarvert að bætast í þann hóp.“

Gunnar hefur hlotið gullmerki Þróttar og blaksambandsins.