Daði Harðarson, 1956-,

Daði Harðarson, 1956-, hóf að æfa knattspyrnu með Þrótti í 4.flokki eftir að skólafélagar og vinir höfðu gengið eftir honum í nokkurn tíma, en faðir Daða hafði nefnilega leikið með Val í gamla daga og Daði vildi verða Valsari eins og hann. „Ég fór bara á eina æfingu hjá Val, það var of langt að ferðast með strætó alla þessa leið svo ég lét til leiðast og fór á æfingu hjá Þrótti enda stutt labb úr Sólheimunum, þar sem við bjuggum og niður í Sæviðarsundið, fyrir okkur Leif bróður minn á Þróttarvöllinn“.  Þjálfari Daða í yngri flokkunum var Guðmundur Gaukur Vigfússon, sem hafði mikil og góð áhrif á Daða og segist hann eiga honum mikið að þakka fyrir hvernig ferill hans þróaðist hjá Þrótti. Daði var mikill markaskorari í yngri flokkunum og þegar hann fór í sveit, í tvö ár í röð í um tvo mánuði í senn, austur í Rangárvallasýslu, sótti Guðmundur þjálfari hann tvisvar sinnum í leiki og skilaði honum síðan eftir leik.  Daði var í 2.flokki þegar hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik en það var byrjunin á 16 ára ferli með flokknum. Daði lék undir stjórn margra þjálfara með Þrótti, t.d. Ásgeirs Elíassonar, Jóhannesar Edvaldssonar, Gunnars R. Ingvarssonar o.fl. og hann flakkaði svolítið milli deilda með félaginu.  Hann varð fyrsti leikmaður félagsins til að leika yfir 300 leiki í meistaraflokki (303 alls) og átti það met um langan tíma og hafa aðeins þeir Páll Einarsson (365) og Hallur Hallsson (463) leikið fleiri.  Daði greip einnig til flautunnar um tíma og náði þar í Héraðsdómararéttindi en dæmdi mest í yngri flokkunum.  Þá lék hann nokkra leiki með Blakliði félagsins en entist ekki lengi þar.  Daði var kjörinn „Knattspyrnumaður Þróttar“ 1982 og sæmdur silfurmerki félagins fyrir langan feril.

Hann lék sinn síðasta leik fyrir Þrótt 1990 áður en hann fluttist til Ástralíu þar sem hann lék með liði í þriðju deild í nokkur ár, var síðan kosinn í stjórn félagsins, fyrst sem ritari, síðan varaformaður og að lokum var hann formaður þess í tvö ár. Nú er Daði heiðursfélagi og mætir til að hvetja liðið sitt.  Það gerir hann einnig þegar hann kemur í heimsókn hingað til Íslands þá birtist hann á leikjum Þróttar.