PhotoGrid_1384297799200Um síðustu helgi fór 4. flokkur kvenna norður til Akureyrar til að taka þátt í haustmóti Blaksambands Íslands. Hér fylgir ferðasaga rituð af Hrafnhildi Brynjólfsdóttur, formanns yngri flokka ráðs Þróttar: Við slógum saman í rútu með Aftureldingu og áttum góða ferð norður í fallegu vetrarveðri. Gistum svo í Lundarskóla en mótið var haldið í KA heimilinu.  Mikil gróska er í krakkablakinu og Þróttur sendi 3 lið á mótið sem í voru 15 stelpur. Við erum ótrúlega stolt af þessum stóra hóp sem stóð sig mjög vel, innan vallar sem utan. A liðið komst meira að segja alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar naumlega fyrir Skellum frá Ísafirði. Silfrið varð því okkar hlutskipti, en miðað við að það voru 28 lið sem kepptu þá er það auðvitað frábær árangur.
Vegna slæms veðurútlits voru leikir sem átti að spila snemma á sunnudeginum færðir yfir á laugardagskvöld. Því var spilað blak í KA heimilinu þangað til klukkan var orðin langt gengin í ellefu og svo byrjað 8:00 daginn eftir. Þrátt fyrir þetta náðum við ekki suður áður en veðrið skall á og vorum stopp í Borgarnesi í tæpa þrjá tíma á meðan vegurinn fyrir Hafnarfjallið var lokaður. Flestum þótti það nú bara skemmtilegt stopp :o)
Frábær ferð með góðum hóp og við hlökkum til næsta móts sem er í lok nóvember í Kópavogi.