Ágætlega sáttar þrátt fyrir tap

Þróttarastelpur tóku á móti Aftureldingu í Mikasadeild kvenna í blaki í fyrrakvöld. Fyrir leikinn voru þróttarar í 5. sæti deildarinnar með 9 stig og Afturelding í því þriðja með 16 stig. Stelpurnar vissu því að það yrði á brattann að sækja.

Stelpurnar komu ákveðnar til leiks í fyrstu hrinu og allt annað var að sjá til liðsins frá því í leiknum á móti HK í síðustu viku. Mikil leikgleði og baráttuhugur var í liðinu. Mosfellingar báru þó sigur úr bítum og endaði hrinan 25-17.

Í hrinu tvö vantaði aðeins upp á baráttuna og endaði hrinan 25-15 Aftureldingu í vil. Í þriðju hrinu mátti sjá frábæra spilamennsku beggja vegna netsins og voru skorpurnar oft á tíðum langar og spennandi. Liðin skiptust á að vera með forystu í hrinunni en stelpurnar úr sveitinni náðu að knýja fram sigur 25-23 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstu leikmenn Þróttar voru Hildigunnur Magnúsdóttir með 10 stig og Fjóla Rut og Brynja voru með 7 stig hvor. Hjá Aftureldingu var Auður Anna Jónsdóttir stigahæst með 11 stig.

Eftir áramót hefur Þróttur bætt við sig tveimur „gömlum leikmönnum“ sem hafa verð frá vegna meiðsla og barneigna. Það eru þær Fjóla Rut Svavarsdóttir sem jafnframt var kjörin íþróttamaður ársins hjá Þrótti og Valdís Lilja Andrésdóttir sem hefur verið frá vegna axlaraðgerðar. Báðar eru hörkuflottir miðjuleikmenn og búist er við að þær muni efla liðið til muna.

Næsti leikur Þróttar er á móti Stjörnunni þann 29. janúar í Ásgarði í Garðabæ.

Fréttaritari: Sunna Þrastardóttir.