Það eru vondar fréttir sem berast. Einn allra besti knattspyrnumaður okkar Íslendinga, Atli Eðvaldsson, er fallinn frá. Leiðir Knattspyrnufélagsins Þróttar og Atla lágu saman þegar hann þjálfaði meistaraflokk karla, hálft árið 2005 og svo 2006. Kynni okkar af Atla voru góð og lærdómsrík – og það var alltaf ánægjulegt að sjá hann síðar koma á völlinn að fylgjast með börnum sínum spila með Þrótti. Það fór nefnilega svo að Sif lék með okkur eitt tímabil, árið 2006 og Emil svo í þrjú ár, 2016-2018. Þá er Egill sonur Atla í þjálfarahópi félagsins, er aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna. Knattspyrnufélagið Þróttur sendir börnum Atla og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur á þessum sorgardegi. Knattspyrnan er fátækari í dag.