Guðbergur Egill í miðjunni handsalar ráðningarsamning sinn við Jón Ólafur formann blakdeildar og Halldór Inga gjaldkera blakdeildar.

Guðbergur Egill í miðjunni handsalar ráðningarsamning sinn við Jón Ólafur formann blakdeildar og Halldór Inga gjaldkera blakdeildar.

Guðbergur Egill Eyjólfsson var í gær ráðinn þjálfara meistaraflokka karla og kvenna blakdeildar Þróttar R keppnistímabilið 2013-2014.

Guðbergur Egill er 42 ára og er uppalinn í HK og var þar lykilleikmaður gullaldarliðs HK árin 1991-1996 auk þess sem hann spilaði með ÍS og KA árin 1996-1999.  Guðbergur spilar stöðu uppspilara og lék meða landsliðum Íslands á ofangreindum árum og er talinn einn af bestu uppspilurum sem Ísland hefur átt.  Hann varð m.a. nokkrum sinnum Íslands- og bikarmeistari með HK og ÍS og er mikill keppnismaður sem þolir hreinlega ekki að tapa.  Guðbergur tók sér síðan pásu á blakiðkun á nýju árþúsundi og gerðist bóndi fyrir norðan en hefur þó þjálfað yngriflokka Magna í Grenivík í blaki undanfarin ár.  Guðbergur tók svo upp aftur blakskóna seinasta keppnistímabil þegar hann gekk til liðs við Þrótt R á miðju keppnistímabili og sýndi að hann hafði engu gleymt í blakinu og fékk þá aftur tækifæri að spila með með reyndum Þrótturum eins og Jóhanni Sigurðssyni og Jóni Ólafi Valdimarssyni sem einnig voru með honum um tíma í gullaldarliði HK.

Guðbergur Egill vill nú hefja þjálfaraferil sinn í blaki að alvöru og því ákvað blakdeild Þróttar R að nýta sér krafta Guðbergs þar sem þjálfarar meistaraflokkanna seinasta árs gefa ekki kost á sér sem þjálfarar áfram.  Guðbergur verður spilandi þjálfari með meistaraflokki karla.  Stjórn blakdeildar Þróttar R veit að Guðbergur er kraftmikill og metnaðarfullur einstaklingur sem vill ná sem lengst með sín lið og Guðbergur er nú þegar byrjaður að vinna í því að styrkja leikmannahóp meistaraflokkanna fyrir næsta keppnistímabil.  Ekki veitir af þar sem árangur meistaraflokkanna var sá slakasti frá stofnun blakdeildar Þróttar R því hvorugu liðinu náði að komast í undanúrslit í bæði bikar- og Íslandsmótinu.  En það vantaði sárlega lítið upp á að betur færi og því er stefnan að gera betur næsta keppnistímabil og jafnvel vera í alvörunni með í baráttunni um titla og er ráðning Guðbergs Egils liður í þeim markmiðum.

Þróttur R bíður Guðberg Egil velkominn til starfa fyrir blakdeild félagsins.