Guðmundur Gaukur Vigfússon og Sölvi Óskarsson heiðursfélagar Þróttar.

Tveir heiðursmenn voru gerðir  að heiðursfélögum í Þrótti við athöfning nú í hádeginu, en það voru þeir Guðmundur Gaukur Vigfússon og Sölvi Óskarsson.

Gaukur eins og hann er jafnan kallaður, varð 75 ára 8 nóvember sl., hann gekk til liðs við Þrótt árið 1967.  Hann lék 68 leiki með m.fl. í knattspyrnu og þjálfaði yngri flokka félagsins um árabil.  Sat í aðalstjórn félagsins í 14 ár, lengst af sem gjaldkeri. Einnig var hann í stjórn knattspyrnudeildar í 7 ár samtals. Gaukur sat í samninganefnd félagsins um flutningana hingað í Laugardalinn og var einnig fulltrúi félagsins í Knattspyrnuráði Reykjavíkur. Eftir að hann lét af stjórnarstörfum var Guðmundur ávallt boðinn og búinn að ljá félaginu aðstoð sína og var skoðunarmaður reikninga félagsins til fjölda ára.

Einnig var Sölvi Óskarsson gerður að heiðursfélaga í félaginu, en hann hefur verið viðloðandi Þrótt lungann af sinni ævi. Sölvi er fæddur 1942 og var fyrst leikmaður með félaginu, en lengst sem þjálfari. Hann þjálfaði hjá félaginu frá 1960-1970 og svo aftur m.a. meistaraflokk félagsins í tvígang – fyrst 1969 og svo aftur 1975-1976 þegar hann þjálfaði liðið ásamt David Moyes eldri. Sölvi hefur auk þess gengt fjölda trúnaðarstarfa fyrir félagið og var m.a. gjaldkeri félagsins til margra ára. Sölvi sat einnig í stjórn ÍBR fyrir hönd Þróttar. Hinn síðari ár hefur Sölvi tekið virkan þátt í skákinni hjá Þrótti. Þess má einnig geta að Sölvi stjórnaði Færeyska landsliðinu í fyrsta opinbera leik þess sem var gegn Íslenska landsliðinu hér á Laugardalsvellinum. Því miður gat Sölvi ekki verið viðstaddur útnefninguna í dag og mun taka við heiðursorðu og skildi félagsins við fyrsta tækifæri.