Helgi Þorvaldsson varð sjötugur þann 26. október sl.

Aðalstjórn félagsins ákvað að nota þetta tækifæri til að þakka Helga fyrir öll árin sem hann hefur unnið fyrir Þrótt og gera hann að heiðursfélaga Þróttar.  Finnbogi Hilmarsson formaður félagsins afhenti honum sérstakan heiðursskjöld og jafnframt mun hann fá heiðurskross félagsins.

Fyrri heiðursfélagar Þróttar eru fjórir og verður Helgi því sá fimmti frá upphafi. Hinir sem eru heiðursfélagar Þróttar eru: Eyjólfur Jónsson, Halldór Sigurðsson, Óskar Pétursson og Tryggvi Geirsson.

Við Þróttarar getum verið endalaust þakklátir fyrir það að Helgi skildi hafa gengið til liðs við Þrótt en ekki KR eða Víking á sínum tíma.  Það var þannig að Eyjólfur Jónsson, sem var einn af stofnendum félagsins, rakst á Helga á göngu á Fálkagötunni á upphafsárum félagsins. Þeir tóku á tal saman og Eyjólfur skráði hann umsvifalaust í félagið þar sem hann hefur verið síðan, og er það okkur Þrótturum mikið happ. Faðir Helga, Þorvaldur I Helgason var einn af stjórnendum félagsins þegar það starfaði vestur á Grímsstaðaholti og sat í annari stjórn félagsins og tók m.a. þátt í fyrsta meistaraflokksleik félagsins í fótbolta.

Helgi hefur nánast komið að öllu í starfsemi Þróttar á einhverjum tímapunkti í gegnum árin. Helgi hafði þann frábæra hæfileika að vera jafnvígur í fótbolta og handbolta og lék hann á sínum tíma vel yfir 100 leiki í meistaraflokki í báðum greinum. Hann hefur stundum verið kallaður „faðir fótboltans“ í Þrótti og eru þeir óteljandi leikmennirnir sem hann hefur þjálfað hjá félaginu. Helgi hefur auk þess gengt fjölda stjórnarstarfa fyrir félagið og var m.a. í stjórn knattspyrnudeildar í 11 ár og þar af formaður í 6 ár. Auk þess hefur Helgi dæmt fjölda leikja fyrir félagið í gegnum árin og gengt ábyrgðarstöðum í sérsamböndum og stjórnum fyrir hönd félagsins. Hin seinni ár hefur Helgi auk þess stýrt skákinni í Þrótti og haldið utan um HM hópinn með góðum mönnum svo eitthvað sé upptalið.

Fjölskyldan hefur alltaf verið Helga traustur bakhjarl í starfinu fyrir Þrótt og mörg hver tekið mikin þátt í starfi félagsins. Má þar nefna  báða foreldra hans, bræður og ekki síst eiginkonan Aileen Ann.  Við þökkum þessu góða fólki fyrir frábært starf fyrir félagið og ekki síst stuðninginn við Helga, því um leið er það ómetanlegur stuðningur við Þróttt.

Það eru svona menn eins og Helgi sem gera það að verkum að félag eins og Þróttur er til, endalaus áhugi og ósérhlýfni um áraraðir. Fyrir það erum við Þróttarar ákaflega þakklátir.

img_5607