Sævar Már Guðmundsson (lengst til vinstri), Halldór Ingi Kárason, Jón Ólafur Valdimarsson og Sigurlaugur Ingólfsson formaður Þróttar (lengst til hægri).

Sævar Már Guðmundsson (lengst til vinstri), Halldór Ingi Kárason, Jón Ólafur Valdimarsson og Sigurlaugur Ingólfsson formaður Þróttar (lengst til hægri).

Fyrir leik Þróttar og KA í blakinu síðastliðinn laugardag fengu 3 leikmenn Þróttar viðurkenningar fyrir að ná ákveðnum leikjafjölda með meistaraflokki karli í blaki.  Sævar Már Guðmundsson (framkvæmdastjóri Blaksambandsins) og Halldór Ingi Kárason (gjaldkeri blakdeildar Þróttar) fengu viðurkenningu fyrir að hafa náð að spila 200 leiki fyrir Þrótt.  Það er samt nokkuð síðan að þeir náðu því markmiði og eru farnir að nálgast 300 leikina með Þrótti.  Sævar og Halldór eru fæddir 1979 og komu frá KA í Þrótt árið 2000 og hafa spilað síðan með Þrótti.  Sævar spilar stöðu uppspilara en Halldór spilar stöðu frelsingja (sérhæfður varnarmaður).  Þeir eiga báðir landsleiki að baki og hafa verið virkir í starfsemi deildarinnar, sbr. Sævar var þjálfari meistaraflokks karla seinasta tímabil.

Jón Ólafur Valdimarsson (formaður blakdeildar Þróttar) fékk viðurkenningu og gjöf frá aðalstjórn Þróttar fyrir að vera 3. leikmaður í meistaraflokki karla að ná 400 leikjum með Þrótti í blakinu.  Jón Ólafur er uppalin í Þrótti, fæddur 1973, og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik 1989.  Hann hefur síðan þá spilað með Þrótti fyrir utan 2 tímabil með HK 1994-1996 og svo sem spilandi þjálfari hjá Hamri í Hveragerði 2011-2013.  Jón Ólafur spilar oftast stöðu díó sem er smassari á móti uppspilara enda vinstri handa smassari en hefur samt í gegnum tíðina spilað allar stöður með Þrótti.  Jón Ólafur á einnig landsleiki að baki og hefur verið formaður blakdeildar með hléum frá árinu 1999 auk þess sem hann hefur þjálfað bæði yngriflokka og meistaraflokka hjá Þrótti.  Þess má einnig geta að Jón Ólafur og Sævar eru einu virku alþjóðlegu blakdómarar Íslands og eru því mjög virkir í blakdómgæslunni hér sem og í dómgæsluverkefnum erlendis.

Það var Sigurlaugur Ingólfsson formaður Þróttar sem veitti viðurkenningarnar og Þróttur óskar þeim innilega til hamingju með áfangann.