Því miður hafa blakarar ekki verið nægilega duglegir að segja fréttir af starfi deildarinnar að undanförnu. Það er skemmst frá því að segja að gengi meistaraflokkanna hefur ekki verið besta móti að undanförnu. En nú verður gerð bragarbót á því. Meistaraflokkar Þróttar, í karla- og kvennaflokki, mættu KA-mönnum á sunnudaginn 3. mars s.l.. Strákarnir riðu á vaðið og unnu dramatískan sigur. Stelpurnar fylgdu í kjölfarið og unnu öllu öruggari sigur.

Þróttarar telfdu fram tveim nýjum leikmönnum í leiknum. Jóhann Sigurðsson tók fram skóna að nýju í síðasta leik og lék á miðjunni. Guðbergur Eyjólfsson lék einnig sinn annan leik fyrir félagið en hann gekk nýlega í raðið Þróttar. Báðir eru þeir Jóhann og Guðbergur reynsluboltar og er mikill fengur í þeim félögum. Guðbergur, eða Beggi, hóf leikinn sem uppspilari og Jói var á miðjunni. Aðrir leikmenn sem byrjuðu leikinn voru þeir Andris Orlovs, Guðmundur Páll, Fannar, Óli A og Halldór Ingi. Fyrsta hrinan byrjaði vel fyrir heimamenn en klaufaleg röð mistaka um miðja hrinuna hleypti KA-mönnum inn í leikinn sem nýttu sér það og unnu hrinuna 20-25. Óhætt er að segja að önnur hrinan hafi verið söguleg í meira lagi. Eins og flestir vita þá þarf að vinna hrinu í blaki með minnst tveggja stiga mun. Ekki er algengt að hrinur fari upp í 30 stig en að þessu sinni urðu úrslit hrinunann 36-34 Þrótti í vil. Hrinan var allt að 30 mínútur að lengd.

Þróttarar urðu fyrir skakkaföllum í þriðju hrinu þegar Jói Sig. meiddist á læri og þurfti að yfirgefa völlinn. Í hans stað kom Sigurður Ágústsson, eða Siggi litli Grundó, og kom hann mjög sterkur inn. KA menn unnu þriðju hrinu 20-25 en Þróttur sneri taflinu sér í vil í þeirri fjórðu og unnu hana, 25-20. Það var því ljóst að þessi maraþon leikur yrði útkljáður í oddahrinu. KA menn byrjuðu betur og voru yfir þegar skipt var um helminga. Í stöðunni 9-13 voru margir Þróttarar orðnir vonlitlir en þá kom frábær kafli hjá heimamönnum sem unnu að lokum dramatískan sigur, 16-14. Á bekknum sátu auk Sigurðar þjálfarinn Sævar Már, sem kom inn í þriðju hrinu og Magnús Ásgeir og fékk hann að spreyta sig tvívegis í leiknum. Á bekknum sat einnig fréttaritari og formaður félagsins, Sigurlaugur, en hann fékk ekki að spreyta sig að þessu sinni.

Sigurinn var svo sannarlega sætur. Stigahæstir í liði Þróttar voru þeir Ólafur og Fannar með 15 stig, Andris Orlovs kom næstur með 14 stig. Í liði KA var Piotr Kempisty með 41 stig! Þróttur er nú í fjórða sæti Mikasadeildarinnar. Um næstu helgi leikur liðið úrslitaleiki um hvort það verður Þróttur Reykjavík eða Þróttur Neskaupstað sem munu leika í úrslitakeppninni. Þróttur R. er með 17 stig en Þróttur N. með 14. Leikirnir eru tveir og fara fram föstudag og laugardag í Neskaupstað. Reykjavíkur-Þróttarar hvattir til að mæta. Þorsteinn Guðnason tók nokkrar myndir í leiknum sem hann leyfði okkur góðfúslega að nota á heimasíðunni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir það.

Halldór, í svörtu, leikur boltanum fram á uppspilarann en Jói (nr. 6) er tilbúinn að koma inn í smassið. Á bekknum sitja þungt hugsi, Siggi, Maggi og Fannar.

 

Fyrirliði Þróttar, Ólafur, smassar en til varnar er hávörn KA. Tilbúnir undir hávörninni eru svo Þróttararnir Beggi (nr. 4), Siggi (nr. 10) og Halldór (nr. 13). Fjær, en engu að síðu tilbúinn, er gamla brýnið Guðmundur Páll (nr. 5).

Seinna sama dag mættust svo kvennalið félaganna. Í byrjunarliði þróttar voru þær Brynja Guðjónsdóttir og Hildigunnur Magnúsdóttir á köntunum, Valdís Lilja Andrésdóttir og Fjólar Rut Svavarsdóttir á miðjunni, Valdís Anna Þrastardóttir í díjó og Sunna Þrastardóttir í uppspili. Þróttar-stelpur byrjuðu fyrstu hrinu vel og voru yfir allann tímann og unu hrinuna 25-21. Önnur hrina fór alls ekki vel af stað og um miðbik hrinunnar var staðan 18-10 KA stúlkum í vil. Þróttarastelpur spýttu þá í lófana og sýndu mikinn karakter og náðu að vinna upp muninn og loks hrinuna 25-23.

Í þriðju hrinu var liðið breytt og kom Natalia Gomzina inn fyrir Sunnu í uppspil sem fékk að smassa á kantinum fyrir Hildigunni. Stelpurnar sýndu flottan leik og unnu síðustu hrinuna örugglega 25-15.

Stigahæstar í liðið Þróttar voru Brynja Guðjónsdóttir og Fjóla Rut Svavarsdóttir með 11 stig hvor. Þetta var síðasti leikur KA í deildinni sem situr eftir leikinn í 7. sæti, næst síðasta sæti deildarinnar. Þróttur situr sem fastast í 5. sæti deildarinnar með 15 stig og takmarkða möguleika á að komast ofar með einungis tvo leiki eftir. Síðasti heimaleikur stúlknanna verður á morgun, þriðjudaginn 5. mars klukkan 20:15. Næstu helgi sækja þær svo lið Þróttar í Neskaupstað heim og enda þar með tímabilið og mæta aftur ferskar til leiks að loknu sumri.

Fréttaritarar voru Sigurlaugur Ingólfsson og Sunna Þrastardóttir.

Lifi Þróttur