Þróttarar unnu til silfurverðlauna á Íslandsmóti 50 ára og eldri um helgina. Þessi árangur er til marks um mikið uppbyggingarstarf í Old boys starfi félagsins því liðið hefur hækkað sig um eitt sæti á mótinu á hverju ári undanfarin ár. Það er því ljóst hvert markmiðið er fyrir næsta ár.

Fyrir lokatúrneringuna sem fór fram í Reykjaneshöll um helgina átti Þróttur veika von um að vinna til gullverðlauna en varð að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum en sú von varð ekki að veruleika. Lokaleikurinn var hreinn úrslitaleikur um annað sætið gegn Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára, Keflavík/Víði. Þróttur, sem varð að vinna leikinn, lenti undir í fyrri hálfleik en með  baráttu og útsjónarsemi hafðist 2-1 sigur. Þess má geta að Knattspyrnufélag Reykjavíkur vann mótið.

Efri röð frá vinstri: Magnús Dan Bárðarson, Ólafur Stefán Magnússon, Sólmundur Jónsson, Júlíus Júlíusson og Flosi Helgason. Neðri röð: Ágúst Tómasson, Benjamín Sigursteinsson, Karl S. Gunnarsson, Geir Leó Guðmundsson og Stefán B. Mikaelsson.