Þróttari vikunnar

Þá er röðin komin að öðrum Þróttara vikunnar. Jón Eyjólfur Jónsson, 1925 -2007, sem var annar aðalstofnandi Þróttar er  gjarnan nefndur sundkappi í virðingarskyni við þau miklu afrek sem hann  vann í sjósundi.

Hann var 24 ára þegar Þróttur var stofnaður og hafði  engin íþróttaafrek unnið og var þá reyndar ósyndur. Algjör tilviljun olli því að hann fór að svamla í sjónum og komst sjálfur upp á lagið með  að synda einhverns konar bringusund. Dugnaður, þrautseigja og bjartsýni   einkenndu manninn. Eyjólfi, eins og hann var alltaf kallaður, var ekki  spáð frama í íþróttum í æsku. Hann varð kornungur fyrir barðinu á  berklaveikinni og læknar töldu ekkert bíða hans nema dauðinn. En einn læknir og ein yfirhjúkrunarkona á Vífilsstöðum neituðu að gefa hann upp  á bátinn og eftir eitt ár var hann útskrifaður þaðan albata eftir fimm ára veikindi.

Það var rúmu ári eftir að Þróttur var stofnaður að glæsilegur ferill hans sem sjósundmaður hófst er hann synti úr  Grímsstaðavör og yfir til Bessastaða. Þangað synti hann oft og þegar hann kom upp í fjöruna þar í þrítugasta skipti tóku Ásgeir Ásgeirsson  forseti og frú Dóra Þórhallsdóttir á móti honum og buðu honum til stofu.  Eyjólfur synti Viðeyjasund, Drangeyjarsund, frá Reykjavík til  Hafnarfjarðar, upp á Akranes sem var um 28 km. leið og er talið eitt  frækilegasta íþróttaafrek 20.aldarinnar á Íslandi. Þá synti hann úr  Vestmannaeyjum til lands og síðast en ekki síst reyndi hann þrisvar við  Ermarsund en varð frá að hverfa í öll skiptin, lenti í hafvillum og  miklum mótstraumi.

Hann var án nokkurs vafa mesti íþróttamaður Þróttar á  síðustu öld. Eyjólfur varð aldrei formaður félagsins en sat í stjórnum og það eru ófáar fundargerðirnar sem liggja eftir hann, auk þess sem  hann skráði aðdragandann að stofnun Þróttar sem finna má í heild sinni í  fimm ára afmælisblaði þess. Hann var gerður að heiðursfélaga Þróttar fyrir  framlag sitt til félagsins.