Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er blakarinn Eldey Hrafnsdóttir. Eldey leikur með meistaraflokki Þróttar í blaki og er þrátt fyrir ungan aldur einn af máttarstólpum liðsins. Hún var valinn íþróttamaður Þróttar árið 2017. Eldey, sem er fædd árið 2000, lék sinn fyrsta A-landsleik í síðustu viku. Við ramman reip var að draga en íslenska liðið beið lægri hlut gegn sterkum liðum Slóvena og Belga í undankeppni Evrópumótsins. Eldey var ánægð með frumraun sína og sagði við það tækifæri: „Það var alveg magnað að fá að spila með þessum hóp af íþróttakonum, sem ég hef litið upp til síðan ég var yngri.“

Eldey á að baki 34 landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Hún hefur í gegnum tíðina einkum leikið á miðjunni, en á þessu tímabili hefur hún fært sig í stöðu díó-kantmanns og fundið sig einstaklega vel í þeirri vandasömu stöðu. Meðalaldur meistaraflokks Þróttar er ekki hár, en Eldey er þó bjartsýn á gengi liðsins í ár. Tvíburasystur hennar leika einnig með liðinu, rétt 15 ára gamlar. Eldey segir að það sé gaman að fylgjast með systrum sínum bæta getu sína og bætir við: „Þær eru báðar komnar mun lengra en ég þegar ég var á þeirra aldri.“ Við það má svo bæta að móðir þeirra systra er allt í öllu í yngra flokka starfi blakdeildar Þróttar.

Á síðustu árum hafa ungir og efnilegir íslenskir blakarar farið í atvinnumennsku, og við spyrjum því Eldey hvort það sé eitthvað sem hún hafi leitt huganna að. Um það segir hún: „Það væri frábær reynsla og upplifun að reyna að spreyta sig úti, en eins og er langar mig að vera hér heima og spila með Þrótti meðan ég klára menntaskóla. En það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni.“