Þróttari vikunnar er Tryggvi Geirsson, fyrrum formaður Þróttar.

Tryggvi Einar Geirsson, 1952-,  er einn af nokkrum formönnum félagsins sem hafa komið til starfa utan af landi og við verið svo heppin að þeir völdu Þrótt.  Tryggvi segist hafa átt val milli Þróttar og Ármanns og hann hafi aldrei séð eftir þeirri ákvörðun sinni að velja Þrótt. 

Hann er ættaður frá Steinum undir Eyjafjöllum, en flutti til Reykjavíkur 1972 eftir nám í Samvinnuskólanum á  Bifröst og hóf að æfa og keppa með meistaraflokki í knattspyrnu, en hætti þegar hann hóf nám í endurskoðun 1973.  Árið 1974 var 5.flokkur í reiðileysi og tók Tryggvi hann að sér og var með flokkinn í tvö ár.  Strax árið eftir gerði hann flokkinn að Íslandsmeisturum og á næstu árum unnust Reykjavíkurmeistaratitill í 4.flokki og nokkur innanhússmót.  Tryggvi flutti til Akureyrar 1977 og ætlaði að setjast þar að en örlagagyðjurnar voru Þrótti vilhallar og dvöl hans fyrir norðan varð aðeins eitt ár og kom hann því aftur til starfa hjá Þrótti af fullum krafti eða rúmlega það.  Hann tók við formennsku í knattspyrnudeildinni á miðju tímabili 1978 og stjórnaði henni til 1981, en kom svo aftur inn árið eftir sem gjaldkeri.                                                                                                                Tryggvi var síðan kosinn formaður Þróttar 1984, eftir að þeir Óli Kr. Sigurðsson og Sölvi Óskarsson höfðu hreinlega sest á hann til að taka við félaginu.  Hann samþykkti það með því skilyrði að þeir félagar ynnu með honum, sem þeir og gerðu.  Tryggvi stýrði félaginu í 16 ár, eða lengur en nokkur annar formaður félagsins, og hann stýrði því inn í 21. öldina. 

Fyrsta verkefni stjórnarinnar var að glíma við fjárhagsvandræði handknattleiksdeildar og fóru um tvö ár í það verkefni sem endaði því miður með því að handboltinn var aflagður í Þrótti þar sem þeir sem stjórnuðu gátu ekki komið með neinar lausnir sem dugðu til að reka deildina án halla.  Annað vandamál sem Tryggvi og félagar þurftu að glíma við var aðstöðuleysi félagsins og varð strax ljóst að þessi aðstaða dugði ekki til frambúðar.  Farið var í viðræður við borgina um flutning í Laugardalinn en málið strandaði á stjórn ÍTR.  Grasvöllur var síðan tekinn í notkun 1989 og og tennisvellir ári eftir, en 1992 náðist samkomulag við Reykjavíkurborg um byggingu gervigrasvallar en þeim samningi var síðan breytt í byggingu íþróttahúss 1994.  Þetta varð síðan til þess að umræður hófust á ný um flutning Þróttar í hjartað í borginni, Laugardalinn.  Framhaldið þekkja félagsmenn.                                    

Tryggvi  er giftur Dagnýju Ingólfsdóttur, frá Húsavík, sem komið hefur að starfi félagsins með öðrum Þróttarkonum.   Tryggvi hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, ÍSÍ, KSÍ, ÍBR og KRR.  Hann var gerður að fjórða heiðursfélaga Þróttar, árið 2008, fyrir störf sín.