Sölvi Óskarsson, 1942-, var á sjöunda aldursári er hann gekk til liðs við hið nýstofnaða félag á Grímsstaðaholti, Þrótt, þar sem hann eyddi flestum tómstundum sínum eftir það, fyrst sem leikmaður í knattspyrnu, en þar var hann í hinum sigursæla 2.flokki sem sigraði bæði á Íslands- og Reykjavíkurmótunum 1961, og síðar sem þjálfari margra yngri flokka félagsins og tvisvar tók hann að sér meistaraflokk og undir hans stjórn vann félagið sér sæti meðal þeirra bestu 1976. Hann þjálfaði „Eldri flokk“ félagsins um árabil og gerði þá að Íslandsmeisturum 1990 auk annarra mótasigra.Sölvi sat í fimm ár í aðalstjórn Þróttar lengst af sem gjaldkeri og sem slíkur jók hann getraunasölu félagsins til muna. Þá sat hann fyrir félagið í stjórn ÍBR um árabil. Árið 1970 var hann meðal stofnfélaga Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands KÞÍ og var kosinn fyrsti formaður félagsins og gegndi því starfi í nokkur ár. Hann starfaði um eins árs skeið í efstu deildinni í Færeyjum og gerði KÍ frá Klaksvík að meisturum 1972 auk þess að stjórna landsliði Færeyja sama ár, m.a. í fyrsta opinbera A-landsleik þeirra sem var gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Sölvi stundaði einnig frjálsar íþróttir og hefur tekið þátt í langhlaupum viða um lönd og þá oft skartað Þróttarbúningnum.Sölvi hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, ÍSÍ, KSÍ, ÍBR, KRR og KÞÍ fyrir störf sín og 2016 var hann gerður að heiðursfélaga Þróttar fyrir störf sín.
Á myndinni þiggur Sölvi heiður úr hendi Magnúsar Óskarssonar, formanns Þróttar árið 1979.