Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar að þessu sinni er Magnús Pétursson, betur þekktur sem Maggi Pé.

Magnús Vignir Pétursson, 1932 – , var aðeins á sautjánda árinu þegar Þróttur var stofnaður og var einn af stofnfélögunum.  Hann hóf strax þátttöku í handknattleik og knattspyrnu, auk þess að vera einn af forvígismönnum að skákæfingum í félaginu og þegar stofnuð var bridgedeild var hann kosinn formaður hennar strax á þriðja ári hennar og gegndi þeirri stöðu í tvö ár.  Þetta dugði honum ekki og var hann fljótlega farinn að þjálfa yngri flokka félagsins.                                            

Árið 1950 tók hann dómarapróf í knattspyrnunni og tók það starf föstum tökum og náði langt, varð landsdómari 1956 og alþjóðlegur FIFA-dómari 1965.  Hann starfaði í um 30 ár og dæmdi víða um lönd.  Magnús dæmdi einnig í handknattleik og var þar í fremstu röð og með alþjóðleg réttindi.                Hann var að auki innflytjandi íþróttavöru og naut félagið góðs af því um árabil því hann var ósínkur á stuðninginn við það. 

Maggi Pé, eins og hann var alltaf kallaður hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, KSÍ, HSÍ, ÍBR og KRR, fyrir störf sín.