Baldur Þórðarson, 1932-, gekk í Þrótt fyrir tóman misskilning „en það var stórt gæfuspor enda hef ég lifað og hrærst í starfi félagsins næstum frá upphafi“, sagði hann síðar.  Hann var nýfluttur frá Vestmannaeyjum með fjölskyldunni en hafði áður búið í Reykjavík og æft með KR og varð þar meistari í yngsta flokki.  Hann hitti Óla B. þjálfara og KR-ing sem eftir stutt samtal segir Baldri að það sé æfing þá um kvöldið á Melavellinum og hvetur hann til að mæta.  Baldur mætti og æfði með drengjunum.  Í sturtunni fór hann að spyrja Óla hvar gömlu félagarnir væru.  „Baldur minn, þú ert ekki á æfingu hjá KR, þetta er Þróttur“, sagði Óli sem orðinn var þjálfari meistaraflokks Þróttar.  Honum líkaði strax vel við mannskapinn, enda var Þróttur og er skemmtilegasta félagið, eins og Baldur hefur löngum haldið fram.

Baldur lék 28 leiki með meistaraflokki en sneri sér síðan að dómgæslu í knattspyrnunni og var einn af fjölmörgum dómurum Þróttar sem nánast sáu um dómgæsluna og eitt árið dæmdu þeir um 80% af öllum leikjum ársins.  Hann varð dómari 1954, landsdómari 1960 og þriðji alþjóðlegi dómari Þróttar 1967-68 og var afar farsæll í starfi.  Hann spilaði Bridge hjá félaginu og hefur verið félagi í skákklúbbnum frá upphafi en er nýlega hættur taflmennskunni vegna heilsubrests.

Baldur hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og KSÍ fyrir störf sín.