Þróttur fékk Aftureldingu í heimsókn í Laugardalshöllina á þriðjudagskvöldið í Mikasadeild karla og fór nýja árið ágætlega af stað hjá Þrótturum. Þróttur vann leikinn 3-1 og færðist þar með upp í 2. sætið í deildinni.

Nokkuð jafnræði var á með liðunum í leiknum og var fyrsta hrinan jöfn og skemmtileg. Þróttur reyndist sterkari á lokasprettinum og vann hrinuna 25-21. Önnur hrinan var einnig jöfn en heimaliðið náði forskoti í lokin og vann hrinuna 25-22.

Afturelding náði sér vel á strik í þriðju hrinunni og skiluðu sókninni betur en í fyrri hrinum. Liðið náði fljótt forskoti og hélt því til loka og unnu sannfærandi sigur í hrinunni 17-25. Fjórða hrinan byrjaði vel hjá Þrótti en liðið komst í 3-0. Leikar voru jafnir eftir það en aldrei náði Afturelding þó forystu í hrinunni. Þróttur endaði hrinuna vel og vann hana 25-20 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstu leikmenn Þróttar voru Ólafur Arason með 19 stig og Fannar Grétarsson með 16 stig. Þess má geta að báðir voru þeir valdir í landsliðsúrval fyrir komandi landsliðsverkefni á þessu ári. Í liði Aftureldingar var Ivo Bartkevics með 28 stig og Jakob Már Baldursson skoraði 5 stig, en báðir æfðu með Þrótti á síðasta tímabili auk þess sem Ivo lék með Þrótti í nokkur ár.

Það er óhætt að segja að Mikasa-deild karla hafi sjaldan eða aldrei verið jafn spennandi og nú. Nafnar okkar frá Neskaupstað hleyptu miklu lífi í deildina með sigri á Íslandsmeisturum HK um helgina. KA-menn virðast einnig vera að vakna til lífsins og unnu Stjörnuna, sem var fyrir umferðina í öðru sæti. Þróttur er nú með 15 stig í deildinni eða jafnmörg stig og Stjarnan í 2. – 3. sæti en Þróttur situr ofar á hrinuhlutfalli. HK er efst í deildinni með 20 stig en Þróttur á einn leik til góða. Stöðuna í Mikasadeild karla má finna hér http://blak.is/default.asp?page=upplvefur/Deildir.asp&Skoda=UrslitRidla

Stelpurnar eiga svo leik í kvöld gegn HK í Fagralundi. Lifi Þróttur