Hjálmar Þ. Baldursson, 1945-, hóf knattspyrnu- og handboltaiðkun á fyrstu árum félagsins, var einn af ófáum Skerfirðingum sem gengu í Þrótt.  Hann lék upp alla flokka í báðum greinum og þau ár sem hann var í 2.flokki var oft mikil mannfæð í flokknum í knattspyrnunni og ekki alltaf þjálfari til staðar og kom það einatt í hlut Hjalla, sem hann var oftast kallaður, að boða í leiki og oft skrifaði hann leikskýrsluna auk þess að vera leikmaður. Það hvíldi því margt á honum og rétt fyrir einn leikinn, á Melavellinum, kom dómarinn inn í klefann til Þróttaranna með skýrslubókina og spurði hver þessi Gunni bróðir sé.  Gunnar bróðir Hjálmars var svarið og var Gunnar aldrei kallaður annað en Gunni bróðir af félögum sínum eftir þetta.  Hjálmar tók dómarapróf 1980 og landsdómarapróf 1983.  Hann er þekktur dugnaðarforkur og hlaut landsdómararéttindi á skemmri tíma en aðrir Þróttarar á undan honum.  Hann hefur verið afar duglegur að dæma og aldrei látið ganga á eftir sér og hefur dæmt vel á annað þúsund leiki og er enn að því hann hefur verið einn af dómurum á ReyCup frá byrjun og getur ekki beðið eftir næsta móti.   Hann hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og KSÍ fyrir störf sín.