Ingvi Sveinsson, 1979-,

Ingvi Sveinsson, 1979-, hóf æfingar hjá Þrótti á lang-yngsta ári í 6.flokki 1987, en þá var 7.flokkur ekki til. „Þá var maður allt að fjórum árum í 6.flokki.  Fyrsta æfingin var á mölinni við Sæviðarsundið, þar sem maður átti eftir að alast upp næstu árin.  Strákarnir sem við erum að þjálfa trúa því ekki að við séum aldir upp á  malarvöllum, svo mikill er aðstöðumunurinn“.

Það var ekki mikið um titla í yngri flokkunum en nokkur Haustmót vann Ingvi þó.  „Besta ástundun“ vann Ingvi svo mörg ár í röð.  Vegna manneklu í 3.flokki var ekki tilkynnt þáttaka í eitt ár og varð Ingvi að leita á önnur mið það árið en kom fljótt aftur á heimaslóðirnar.  Fyrsti leikur Ingva í meistaraflokki Þróttar var 1997, í 2-1 sigri gegn heimamönnum á Dalvík og leikir hans áttu eftir að verða 272 og er hann fjórði leikjahæsti Þróttarinn.  Hann var kosinn efnilegasti leikmaður flokksins 1999.  Ingvi lék undir stjórn margra góðra þjálfara, Willums Þórs Þórssonar, Ásgeirs Elíassonar, Atla Edvaldssonar, Gunnars Oddssonar og Páls Einarssonar.  Hann fór á fótboltastyrk 1999, til Bandaríkjanna.  Síðasti leikur Ingva í meistaraflokki var gegn Fjölni 2011 á Valbjarnarvelli. Minnisstætt atvik úr leikjum hans með Þrótti var fyrsti leikur hans í úrvalsdeild þegar hann hlaut heilahristing í leik gegn KR á Laugardalsvellinum árið 2003.  „Í miðjum leik spyr ég Eystein við hverja við séum að keppa og svo hver staðan sé.“ Ingvi lék eitthvað með SR, venslaliði Þróttar, eftir að hann hætti með Þrótti.

Ingvi hóf að skipta sér af þjálfun í kringum 13 ára aldurinn, þegar hann aðstoðaði við knattspyrnuskóla félagsins og hefur í raun ekki hætt síðan, var fyrst aðstoðarþjálfari fyrstu árin og síðan aðalþjálfari 6.flokks kk.,árið 2000.  Síðan hefur Ingvi þjálfað ófáa unga Þróttara og það er erfitt að ná ljósmynd í Laugardalnum án þess að hann sé á henni.  Hann er núna að þjálfa 4.flokk kk., ásamt þeim Halli Hallssyni og Tommy Nielsen, tveimur toppmönnum.  Ingvi lætur þjálfun barnanna í hverfinu ekki duga, heldur hefur hann verið kennari í Langholtsskólanum í 17 ár, en sjálfur var hann nemandi þar í 10 ár.

Hann hefur nokkrum sinnum verið kosinn „Félagi ársins“ að verðleikum og „Þróttari ársins“2006.  Hann er þessa dagana að ljúka A-þjálfaragráðu KSÍ.  Dóttir Ingva er byrjuð að æfa með 6.fl.kvk.  Eitthvað fannst Ingva þetta ekki nóg því að í 7 ár æfði hann Badminton meðfram knattspyrnuiðkuninni.

Ingvi hefur hlotið gullmerki félagsins og silfurmerki KRR fyrir störf sín.