Jón Birgir Pétursson,1938 -, ólst upp í Skerjafirðinum og er einn af fyrstu félögum Þróttar og hóf strax að æfa knattspyrnu í 4.flokki. Aðeins tveimur árum eftir stofnun félagsins, varð sá flokkur  fyrsti meistari þess, þegar flokkurinn varð Haustmeistari 1951, eftir sigurleik gegn Val á Grímsstaðaholtsvellinum. Jón Birgir lék upp alla flokka félagsins, þar af í nokkur ár með meistaraflokki. Þá kom hann að þjálfun yngri flokka hjá Þrótti.

Hann vann mörg störf fyrir félagið en ötulastur var hann við að skrá sögu þess og ritstýrði hann nokkrum afmælisritum Þróttar, þ.m.t. 50 ára afmælisritinu „LIFI ÞRÓTTUR“, sem er ótæmandi brunnur um fróðleik um félagið okkar. Einnig skráði hann sögu Eyjólfs Jónssonar, sjósundkappa og annars aðalstofnanda Þróttar.

Jón hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín.