Diljá og Kristín Eva semja við Þrótt

Knattspyrnufélagið Þróttur hefur undirritað tvo eins árs langa samninga við varnarkempurnar Diljá Ólafsdóttur og Kristínu Evu Gunnarsdóttur. Samningarnir eru liður í undirbúningi fyrir komandi tímabil, en meistaraflokkur kvenna spilar í 1. deild.

Diljá er 26 ára að aldri, en á engu að síður að baki um áratug af spilamennsku í meistaraflokki eða um 87 leiki þar sem hún hefur skorað 4 mörk. Hún hefur lengst af leikið með Þrótti, en þó farið þrisvar sinnum í útrás og spilað með HK/Víkingi, Aftureldingu og KR. Diljá var valinn besti leikmaður meistaraflokks kvenna að afloknu síðasta tímabili.

Kristín Eva er 19 ára gömul og spilar stöðu miðvarðar að öllu jöfnu. Hún kemur til Þróttar frá Skínandi og Stjörnunni í Garðabæ. Hún spilaði allt síðasta tímabil í 1 deild með Skínandi, sem er dótturfélag Stjörnunnar.

„Ég er gríðarlega ánægður með að Diljá hafi undirritað nýjan samning. Hún er frábær persónuleiki og var hluti af öflugri vörn okkar síðastliðið sumar. Diljá var mikilvægur hluti af varnarteymi sem hélt 7 sinnum hreinu á tímabilinu og fékk aðeins 4 mörk á sig í síðustu 10 leikjunum,“ segir Nik Chamberlain, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Þrótti.

„Kristín Eva spilaði gegn okkur á nýliðnu tímabili og ég horfði líka á fleiri leiki með henni. Hún stóð sig vel í þessum leikjum, en er auðvitað ungur leikmaður og mun taka út mikinn þroska á næstu árum. Kristín Eva hefur alla burði til að verða firnaflinkur miðvörður og er auðvitað nú þegar orðin hörkugóð,“ bætir Nik við, en hann er hægra megin á meðfylgjandi mynd, ásamt Kristínu Evu. Diljá er vinstra megin.