„Dr. Vilhjálmur“ endurnýjar við Þrótt til tveggja ára

Knattspyrnudeild Þróttar heldur áfram að styrkja karlalið sitt fyrir komandi átök í Inkasso-deildinni á næsta tímabili. Nú hefur vængmaðurinn Vilhjálmur Pálmason endurnýjað samning sinn við félagið til tveggja ára. Heimamaðurinn Vilhjálmur hefur alla tíð spilað með Þrótti og á að baki 139 leiki og 18 mörk fyrir félagið.

„Þessi samningur er okkur gríðarlega mikilvægur. Vilhjálmur er einn fljótasti vængmaðurinn í íslenska boltanum og hefur verið meðal okkar bestu manna undanfarin ár. Það er ekki ónýtt að eiga í handraðanum kappa, sem hefur hlaupið 60 metra á 7,19 sekúndum, 200 metra á 22,8 og 400 á 50,47. Þar fyrir utan er Vilhjálmur nýorðinn 25 ára en fer nú inn á sitt áttunda tímabil í meistaraflokki, þannig að þessi flinki strákur er einn af reynsluboltunum í hópnum,“ segir Ótthar Sólberg Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar.

„Það var lykilatriði að fá Vilhjálm með okkur í slaginn og við settum endurnýjun samnings við hann í algjöran forgang. Við erum afskaplega hreyknir af kappanum eins og öðrum Þrótturum, en auðvitað þykir okkur alltaf vænst um heimamenn. Þá sem hafa gefið félaginu allt sem þeir eiga og spilað með okkur frá blautu barnsbeini. Vilhjálmur er hokinn af reynslu og hefur verið reglulega í úrvalsliðum fjölmiðla. Stjarna hans mun skína skært í Inkasso-ástríðunni næsta sumar,“ segir Haraldur Agnar Bjarnason, formaður knattaspyrnudeildar Þróttar.

Vilhjálmur Pálmason lærir nú til læknis og er því jafnan kallaður „Dr. Vilhjálmur“ innan félagsins, rétt eins og kollegi hans hjá Þrótti, miðjumaðurinn „Dr. Oddur“ Björnsson. Æskuvinirnir Oddur og Vilhjálmur hafa nú skorað jafn mörg mörk fyrir Þrótt í meistaraflokki, 18 talsins, en Oddur á þó færri leiki vegna meiðsla síðastliðið sumar þegar hann spilaði ekkert.