Enskur framherji til Þróttar

Þróttur notaði tækifærið á síðasta degi félagaskiptagluggans og krækti sér í enska framherjann Dean Morgan, sem hefur undirritað samning út tímabilið við meistaraflokk karla í knattspyrnu. Dean er 32 ára gamall og kemur til Þróttar frá Newport County. Hann á að baki 16 ára feril sem atvinnumaður og hefur spilað yfir 440 leiki með liðum á borð við Reading, Luton, Crewe Alexandra, MK Dons, Aldershot, Chesterfield, Oxford United, Southend og Wycombe Wanderers. Dean á sömuleiðis að baki nokkra leiki með landsliði karabíska eyríkisins Montserrat, en hann er gjaldgengur þar gegnum móður sína sem er þaðan.

„Það var mjög mikilvægt að styrkja sóknarlínu okkar í kjölfarið á meiðslum Emils Atlasonar, sem spilar ekki meira í sumar. Stjórn knattspyrnudeildar á skilið mikið lof fyrir að bregðast hratt við því áfalli. Dean Morgan kom til landsins fyrr í dag og lítur vel út. Ef allt gengur upp, þá mun hann spila fyrir okkur strax í næsta leik. Ég er hæstánægður með að hafa krækt í þennan gæðaleikmann. Hann er snjall, leikinn, þaulreyndur og verður frábær viðbót við okkar góða hóp,“ segir Gregg Ryder þjálfari Þróttar.

„Þetta verður skemmtilegt ævintýri. Ég hef þegar fengið útsýnistúr um Laugardal og skil vel að hann sé kallaður hjartað í Reykjavík. Ég er alinn upp í Tottenham-hverfinu í London og umhverfið þar er ekki ósvipað. Hlakka til þess að æfa og keppa með Þrótti. Er staðráðinn í að leggja mitt af mörkum til að taka þetta félag áfram og upp. Það verður líka gaman að eignast nýja vini og mikil tilhlökkun að hitta minn gamla liðsfélaga frá Wycombe Wanderers, Sebastian Svard. Ég spilaði enn fremur með Ívari Ingimarssyni hjá Reading, þannig að ég þekki aðeins til Íslands,“ segir Dean Morgan.

Til Þróttar eru nú komnir þeir Arnar Darri Pétursson frá Stjörnunni, Aron Þórður Albertsson og Viktor Unnar Illugason frá HK, Brynjar Jónasson frá Fjarðabyggð, Callum Brittain og Kabongo Tshimanga frá MK Dons, Emil Atlason frá KR, Finnur Ólafsson frá Víkingi Reykjavík, Kristian Larsen frá Bröndby, Sebastian Steve Cann-Svärd frá Wycombe Wanderers og Songkhla United, Thiago Pinto Borges frá FC Vestsjælland.