Grétar Sigfinnur gerir tveggja ára samning við Þrótt

Grétar Sigfinnur Sigurðarson hefur undirritað tveggja ára samning við Þrótt. Miðvörðurinn hávaxni kemur til liðsins frá Stjörnunni þar sem hann spilaði síðastliðið sumar.

Grétar Sigfinnur á að baki 341 leik í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 37 mörk. Hann er uppalinn KR-ingur og spilaði þar í 8 ár, en færði sig til Stjörnunnar í fyrra. Áður spilaði hann fjögur tímabil með Víkingi Reykjavík og sitthvort árið með Sindra og Val.

Grétar varð tvívegis Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari með KR og einu sinni bikarmeistari með Val. Hann á sömuleiðis nokkra leiki með yngri landsliðum Íslands. Grétar er fæddur 1982 og nýorðinn 34 ára gamall.

ÓTTHAR: VIÐ ERUM HIMINLIFANDI
„Grétar Sigfinnur er frábær fagmaður í algjöru toppformi. Hann hefur hugarfar sigurvegara og er mikill leiðtogi á velli, ásamt því sem hann færir rósemi og nauðsynlega yfirvegun í leik okkar. Við vildum styrkja kjölfestuna í varnarleiknum og fáum núna til okkar kappa, sem hefur verið einn besti miðvörður efstu deildar hér á landi í áratug. Við erum himinlifandi yfir þeim áfanga,“ segir Ótthar Sólberg Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar.

GRÉTAR: GRÍÐARLEGA SPENNTUR
„Ég er hamingjusamur og gríðarlega spenntur fyrir framtíðinni hjá Þrótti. Þjálfarinn er ungur og metnaðarfullur og hérna hjá félaginu eru miklir möguleikar og tækifæri. Hópurinn næsta sumar er nú þegar orðinn hörkuflottur og ennþá er verið að vinna í styrkingum. Ég er í toppformi og á mikið inni. Er staðráðinn í að smita út frá mér gleði og krafti í Inkasso-ástríðunni næsta sumar. Það er ljóst að Laugardalurinn er og verður áfram hjartað í Reykjavík,“ segir Grétar Sigfinnur.

GREGG: SIGURVEGARI Í FREMSTU RÖÐ
„Þessi samningur sendir afgerandi skilaboð um hug okkar til næsta tímabils. Þrátt fyrir erfiðleikana síðastliðið sumar, þá sýnir koma Grétars Sigfinns í Laugardalinn núna, að okkur er alvara og höfum mikinn metnað til að skapa Þrótti sess meðal þeirra bestu. Grétar er sigurvegari í fremstu röð og hefði aldrei samið við Þrótt undir öðrum kringumstæðum. Ég vil nota tækifærið og þakka Ótthari framkvæmdastjóra og stjórn knattspyrnudeildar fyrir frábæran stuðning og fagmennsku í þessu verkefni. Þeir komu þessum samningi í höfn. Það er mikil tilhlökkun í mér að vinna með leikmanni af þeim gæðum sem Grétar Sigfinnur hefur til að bera. Hann á eftir að verða okkur mikilvægur liðsstyrkur í uppbyggingu félagsins,“ segir Gregg Oliver Ryder, þjálfari meistaraflokks karla hjá Þrótti.