Hlynur Hauksson til liðs við Þrótt á nýjan leik: „Ekkert helvítis kjaftæði“

Varnarjaxlinn Hlynur Hauksson hefur endurnýjað samning sinn við Þrótt til tveggja ára. Hlynur sinnti námi í Barcelona síðastliðinn vetur og tók sér síðan frí frá knattspyrnu yfir sumarið. Hann mætir nú til leiks í Inkasso og mannar stöðu vinstri bakvarðar í Þrótti sem fyrr. Hlynur á að baki 104 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 3 mörk. Hann verður með leikjahæstum mönnum hópsins á næsta tímabili. Hlynur er uppalinn Bliki, en hóf ferilinn í meistaraflokki á fjórum tímabilum með Skagamönnum. Hann skipti síðan yfir í Þrótt árið 2012 og á að baki 83 leiki með félaginu.

HLYNUR: ÁNÆGÐUR OG SPENNTUR
„Þegar Gregg hringdi til að fá mig á fund, þá var ég alveg viss um að hann væri að hafa samband til þess að leysa ákveðin vandmál framar á vellinum… Sumarið 2015 skoraði ég nefnilega eitt mark og skaut nokkrum sinnum í stöng og slá í einum leik! En að öllu gríni slepptu, þá er ég mjög ánægður og spenntur fyrir áætlunum Greggs. Og líst vel á það hlutverk sem hann ætlar mér. Eftir að hafa fylgst dapur í bragði með gengi Þróttar síðastliðið sumar frá suðrænum slóðum, þá vildi ég ólmur gera eitthvað í málunum og tók því takkana fram á nýjan leik. Þróttur á að vera í hópi þeirra bestu og ekkert helvítis kjaftæði. Það býr mikið í nýja genginu, sem er að safnast núna saman í Laugardalnum og það er mikil tilhlökkun í mér að taka slaginn,“ segir Hlynur Hauksson.

GREGG: FRÁBÆR VIÐBÓT Í HÓPINN
„Hlynur er frábær viðbót við hópinn og við bjóðum hann hjartanlega velkominn. Hann var einn af bestu leikmönnum Þróttar sumarið 2015 þegar að við komumst upp í efstu deild. Ég er sannfærður um að Hlynur mun leggja gríðarlega hart að sér til að endurtaka frammistöðu sína það sumar og koma sér aftur í sitt hefðbundna hörkuform. Hann kemur til leiks með ótrúlegt keppnisskap og hefur til að bera þann nauðsynlega vinnuaga sem sem þarf til að tækla verkefnið framundan,“ segir Gregg Ryder, þjálfari Þróttar.

ÓTTHAR: GRJÓTHARÐUR EN LJÚFUR
„Hlynur hefur verið skotmark hjá okkur alveg síðan tímabilinu lauk. Þetta er grjótharður, snöggur og vinnusamur leikmaður, sem var áður í lykilhlutverki hérna í Laugardal. Við erum að tala um 28 ára reynslubolta, sem hefur lokið 8 leiktímabilum í meistaraflokki. Hann er þess utan sterkur félagslega og fórnfús samherji. Það er bara geggjað að þetta ljúfa granít sé nú aftur mætt í hjartað í Reykjavík,“ segir Ótthar S. Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar.