Lokahóf knattspyrnudeildar Þróttar: Diljá og Vilhjálmur best

Lokahóf knattspyrnudeildar Þróttar fór fram um síðustu helgi, en þar voru meðal annars verðlaunaðir bestu og efnilegustu leikmenn félagsins í meistaraflokki og 2. flokki kvenna og karla, ásamt því sem veittar voru viðurkenningar fyrir leikjafjölda og fleira skemmtilegt.

Besti leikmaður meistaraflokks kvenna í knattspyrnu árið 2016 var Diljá Ólafsdóttir, efnilegust þótti Stefanía Ragnarsdóttir og markahæst reyndist vera Valgerður Jóhannsdóttir fyrirliði. Besti leikmaður meistaraflokks karla var Vilhjálmur Pálmason, en efnilegastur þótti Brynjar Jónasson og hann var einnig markahæstur.

Besti leikmaður 2. flokks kvenna var Halla María Hjartardóttir, en Þórkatla María Halldórsdóttir þótti efnilegust. Besti leikmaður 2. flokks karla var valinn Aron Örn Steinarsson, en Marteinn Einarsson þótti efnilegastur og Hrafn Ingi Jóhannsson var markahæstur.