Markahrókurinn Björgvin Stefánsson til Þróttar

Framherjinn Björgvin Stefánsson er genginn í raðir Þróttar og kemur til félagsins á láni frá Haukum til loka tímabilsins. Björgvin var markahæsti leikmaður 1. deildar í fyrra þegar hann skoraði 20 mörk í deildinni fyrir Hafnfirðingana, einu marki meira en Viktor Jónsson sem þá spilaði með Þrótti. Árið áður fór Björgvin mikinn í markaskorun hjá BÍ/Bolungarvík og skoraði 9 mörk í 14 leikjum. Björgvin er fæddur árið 1994 er uppalinn hjá Haukum. Hann fór á lán til Vals í upphafi þess tímabils, en fékk lítinn spilatíma á Hlíðarenda af ýmsum ástæðum. Björgvin á að baki talsverðan fjölda landsleikja með yngri liðum Íslands. Hann hefur ítrekað vakið athygli út fyrir landsteinana og meðal annars verið til reynslu hjá Lilleström og Sogndal í Noregi.

BJÖRGVIN GRÍÐARLEGA SPENNTUR
„Ég er fyrst og fremst rosalega ánægður með að vera kominn í Þrótt. Þetta er flott félag og mér líst vel á verkefnið. Hlakka mikið til að spila minn fyrsta leik og get vonandi hjálpað liðinu að ná sínum markmiðum. Ég hef heyrt afskaplega góða hluti um Gregg Ryder og veit að hann er metnaðarfullur fagmaður í fremstu röð. Gregg sýndi mér mikinn áhuga og hefur óbilandi trú á mér. Það skiptir mig öllu máli. Leikmannahópurinn er sterkur og ég þekki nokkra af strákunum. Ég er gríðarlega spenntur og mun leggja mig allan fram fyrir félagið og stuðningsfólk þess,“ segir Björgvin Stefánsson.

HIMINLIFANDI ÞJÁLFARI ÞRÓTTAR
„Ég er himinlifandi að hafa fengið Björgvin til okkar, enda verið aðdáandi hans sem leikmanns um langt árabil og fylgst náið með honum. Leikstíll Björgvins passar leikskipulagi okkar fullkomlega og ég tel hann akkúrat rétta manninn fyrir okkar heimspeki og félagsanda. Hann er sterkur, árásargjarn og það sem mikilvægast er: Hann mun skora mörk! Brynjar Jónasson hefur verið í mikilli framþróun núna í sumar og vaxið hraðar en við bjuggumst við, en hann getur ekki borið einsamall byrðina af markaskorun liðsins. Við vildum þess vegna bæta við þrautreyndum og markheppnum framherja og teljum að það hafi tekist. Í dag fögnum við komu magnaðs framherja til Þróttar og í gær heilsuðum við sterkum miðjumanni. Báðir munu létta mikilli pressu af varnarmönnum okkar. Fleiri styrkingar á hópnum gætu verið í farvatninu og þá einkum í vörninni, en það kemur í ljós, “ segir Gregg Ryder, þjálfari Þróttar.

FIMM LEIKMENN HVERFA Á BRAUT
„Við Þróttarar kveðjum núna í glugganum nokkra hörkugóða leikmenn. Hilmar Ástþórsson og Aron Ýmir Pétursson hafa þannig báðir ákveðið að yfirgefa Þrótt eftir frábær ár hjá okkur og við færum þeim þúsund þakkir fyrir hnökralaust samstarf. Sömuleiðis eru Bretarnir Kabongo Tshimanga, Callum Brittain og Dean Morgan á förum frá félaginu. Það liggur fyrir að Þróttur þurfti að efla sig talsvert fyrir komandi átök. Okkar aðalmarkmið er að halda liðinu í deildinni og sigla lygnan sjó í mótslok. Við förum varlega í allar hreyfingar á mannskap og reynum að framkvæma þær af yfirvegun á þeim stutta tíma sem vinnst til. Það er ekkert launungarmál að við höfum bæði verið hundóheppnir með meiðsli og eins hafa sum leikmannakaup okkar ekki skilað tilætluðum árangri. En þannig er bara fótboltinn hjá brothættum og pínulítið blönkum nýliðum í deildinni. Nú reynum við að bregðast við því og svo lengi lifir sem lærir,“ segir Haraldur Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.